03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

52. mál, endurbygging raflínukerfis í landinu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir allt sem hv. frsm. fjvn. sagði um mikilvægi þess máls sem þessi þáltill. fjallar um. Mér þykir aðeins rétt að minna á það, að þegar fyrri hluti umr. fór fram tók ég til máls og vakti athygli á því, — það var í nóv. s. 1., — að um margra mánaða skeið hefði verið unnið nákvæm­lega að því verkefni sem þessi þáltill. fjallar um. Það hafði verið gert samkv. samþykkt orkuráðs og sérstakir sérfræðingar unnið að þessu þá um margra mánaða skeið. Ég gat líka um að það væri vonast til þess að þessu verki, að gera áætlun eða kostnaðaráætlun um þessar framkvæmdir, yrði lokið á næsta hausti. Ég talaði allítarlega um þetta og skýrði frá þessu. Ég ætla ekki að endurtaka það hér. Ég ætla ekki að endurtaka það hér. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er verið að vinna að því máli, sem hér er fjallað um, og þess er vænst, að því ljúki að gera þessa áætlun núna innan nokkurra mánaða.