17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

126. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) [frh.]:

Hæstv. forseti. Ég mælti fyrir nál. okkar hv. þm, Karvels Pálmasonar í gær og var ekki alveg búinn að ljúka máli mínu þegar hæstv. 1, varaforseti deildarinnar gaf kaffihlé. Trúlega hefur honum þótt að eitthvað væri farið að draga af mér og viljað gefa mér tækifæri til að sækja í mig veðrið og tala rösklega dálítið lengur. Ég notaði kaffitímann að sjálfsögðu til þess. En hléið reyndist verða lengra, því upp komu einhver vandamál sem gerðu nauðsynlegt fyrir þingflokk Framsfl. að ræðast við í einn eða tvo klukkutíma, þannig að ekkert varð úr fundarhaldi eftir að kaffitíminn var gefinn í gær, (Gripið fram í: Það var tillitsemi við þig.) Var það tillitssemi við mig, svo ég gæti sótt betur í mig veðrið?

Ég hef þess vegna haft góðan tíma til að hvíla mig á milli ræðupartanna og gæti raunar rætt um þetta mál í marga klukkutíma, því málið er þess eðlis. Það varpar skýru ljósi í margar áttir. Ég ætla þó að hlífa þm. við því að ræða hér í marga klukkutíma, en það hefur sitthvað komið upp í hugann frá því að ég ræddi hér á fundinum í gær.

Ég vil minnast á það, að ég veitti því athygli og benti þm. á það, að hæstv, forseti, Ragnhildur Helgadóttir. brosti snögglega þegar ég fjallaði um einn þátt ræðu minnar, Ég var þar að tala um siðgæði manna í þessu þjóðfélagi og tengdi það við breytingar á þjóðfélagsháttum, breytingar bæði á efnahagsmálum og atvinnumálum. Þá brosti hæstv. forseti. Mér hefur alltaf þótt hæstv. forseti hafa fallegt bros, en þetta bros í gær var ekki fallegt, Það átti að vera háðsbros. Hæstv. forseti virtist telja þetta einkennilega kenningu, að síðgæði manna væri í tengslum við það sem gerðist í efnahags- og atvinnumálum. Þótt hæstv. forseti hafi kannske viljað hæðast að barnaskap mínum er þessi kenning ekki upprunnin í hugskoti mínu. Þetta er kenning sem allir helstu heimspekingar og sagnfræðingar veraldarsögunnar hafa notað í sínu mati á þjóðfélagsatburðum, Þeir hafa rakið það, hvernig heil þjóðfélög og stórveldi hafa hrunið til grunna einmitt vegna þess að siðgæðisvitund manna molnaði undir fótum þeirra. Mér er það full alvara, að sú þróun, sem hefur verið að gerast hér á Íslandi, einkanlega seinustu árin, sú óðaverðbólguþróun, sem hefur verið að magnast, er kveikjan að ýmsum þeim viðurstyggilegu atburðum, sem gerst hafa í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár, Þeir atburðir stafa ekki af mannvonsku. Þeir stafa af því að siðferðismælikvarðar eru orðnir að engu, vegna þess að þróun þjóðfélagsins hefur orðið slík sem ég gat um áðan, og ég held að ástæða sé til fyrir alla hv. þm. og hæstv. forseta og ráðh. að gefa þessu vandamáli gaum.

Það er staðreynd, að síðustu árin hafa gerst hér á Íslandi atburðir sem aldrei fyrr hafa gerst hér á landi síðan á Sturlungaöld, Á Sturlungaöld lauk þeirri atburðarás þannig, að Íslendingar misstu sjálfstæði sitt og urðu síðan að búa við erlenda yfirstjórn í næstum því sjö aldir. Mér er það full alvara að vara við því, að ef þessi þróun heldur áfram er sjálfstæði okkar í fullkominni hættu. Þetta er mál sem við skulum ekki brosa að. Þetta er mikið alvörumál.

Í morgun fékk ég í hendur Morgunhlaðið eins og aðra daga; þá sá ég grein þar eftir hæstv. forseta, Ragnhildi Helgadóttur, og greinin ber fyrirsögnina: „Skoðanakönnun Sjálfstfl. í varnarmálum.“ Þar kemur siðgæði allt í einu við sögu. Hæstv, forseti., sem setti á andlit sitt háðbros í gær þegar ég minntist á síðgæði, talar sjálf um siðgæði í Morgunblaðinu í dag í sambandi við hersetuna á Íslandi. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta: „En svo eru aðrir menn, og þeir vona ég að séu færri, þeim hefur a.m.k. ekki skotið upp á yfirborðið í Sjálfstfl, fyrr en nú nýlega. Þeir líta svo á að allt lífið sé viðskiptalíf, ein allsherjar fésýsla, Þeir sjást tæpast fyrir í fjáröflunardugnaði sínum og vilja nota það í fjáröflunarskyni, að fleiri þjóðir en við hafa hagsmuni af því, að Ísland sé varið. Á þeim grundvelli kynni að vera hægt að ná fram einhverjum fjárgreiðslum. E.t.v. finnst þessum mönnum að einskis virði sé að okkar land sé varið, Illa er komið fyrir mönnum þegar ekkert sést jákvætt nema peningar,“

Þetta skrifar hæstv. forseti í Morgunblaðið í dag. Þarna er hæstv. forseti að lýsa siðgæðisviðhorfi gegn því peningaviðhorfi sem gagnsýrir þjóðfélag okkar og leiðir m.a. til hörmulegra atburða, glæpaverka. En hæstv, forseta er ekki mikil alvara í raun.

Ég vil vitna aftur í greinina. Síðan stendur: „Hætt er við að gjaldheimta á hendur þeim (þ.e. Bandaríkjamönnum) vegna innlendra framkvæmda á Íslandi gæti leitt til þess, að þessi varnarstöð þætti of dýr og yrði þess vegna lögð niður.“ Hæstv. forseti er hræddur um það, að ef lagðar verði meiri fjárhagsskuldbindingar á Randaríkjamenn í sambandi við hersetuna kunni Bandaríkjaþing að leggja herstöðina niður. Það væri hættulegt, segir hæstv. forseti.

Þegar bandarísku hermennirnir komu hingað til lands var formaður í Sjálfstfl. sem hét Bjarni Benediktsson. Hann gerði alltaf grein fyrir því. að hann teldi að hér þyrfti að vera her vegna þess að Íslendingar væru ella varnarlausir. Hann bjó til kenningar um hættu í sambandi við styrjaldir, — kenningar sem ég féllst aldrei á og tel að ekki hafi staðist, en röksemdir hans voru ævinlega bornar fram á siðgæðisgrundvelli.

Hæstv. forseti er búinn að gleyma siðgæðinu í þessu sambandi. Bjarni heitinn Benediktsson sagði alltaf að hernámið væri ill nauðsyn, og hann sagði mér það í einkaviðtali, að hann vonaði að herinn yrði horfinn af Íslandi áður en hann dæi. Það voru siðgæðisviðhorf sem réðu mati hans. En þau komu ekki fram í þessum orðum sem ég las eftir hæstv. forseta. Þar voru einvörðungu peningaviðhorf, það mætti ekki gera meiri fjárhagskröfur á hendur hernum því þá væri hætta á að hann færi. Það er ekki lengur verið að tala um frelsi og lýðræði. Allt snýst orðið um peninga, líka hjá hæstv, forseta.

Mig langar að vitna í enn eina klausu úr þessari grein í Morgunblaðinu í dag. Hæstv. forseti minnist þar á ýmislegt sem hernámsliðið standi undir, minnist á Keflavíkurflugvöll. björgunarstörf, aðstoð í Vestmannaeyjagosinu, — hún var, að því er mig minnir, í því, að hernámsliðið flutti nokkrar kindur til lands. Og sitthvað er fleira af peningatagi sem hæstv. forseti leggur áherslu á, Svo segir hæstv. forseti: „Þess vegna skulum við taka undir bær skoðanir sem forsrh. okkar, formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, hefur sett fram um þessi mál, nú seinast í sjónvarpsviðtali nýlega. Forsrh. vill ekki verðleggja sjálfstæði Íslands.“ — Það er nú svo.

Ég hef minnt á það áður hér á þingi, að hæstv. forsrh. hóf opinberan feril sinn að loknu prófi í Háskólanum sem framkvæmdastjóri Sameinaðra verktaka. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á það, að á dagskránni er frv, til laga um almannatryggingar.) Já, ég var að ræða um siðgæði í því sambandi, og ég er að gera athugasemdir við sérstakt bros sem hæstv, forseti setti upp á fundinum í gær. (Forseti: Ég vil nú aftur minna á að það er ekki þáttur í frv. til laga um almannatryggingar.) Brosið er mjög ríkur þáttur af hæstv. forseta. — Þetta starf hæstv. forsrh., Geirs Hallgrímssonar, var í því fólgið að safna saman gróðafyrirtækjum til þess að hagnast á hersetunni, þ. á m. fyrirtækjum sem hæstv. forsrh. á mjög mikinn hlut í sjálfur. Síðan var þessu hlutafélagi lokað. Það hefur komið fram hér á þingi, að uppi er ágreiningur á milli hæstv. forsrh., Geirs Hallgrímssonar, og hæstv. iðnrh., Gunnars Thoroddsens, um þessi mál. Hæstv, ráðh. Gunnar Thoroddsen gagnrýndi formann Sjálfstfl. og forsrh. sinn fyrir að halda þessu hermangarafyrirtæki lokuðu svo ekki kæmust fleiri aðilar að til að hagnast.

Það fer lítið fyrir siðgæðinu í öllum þessum málflutningi, og ég tel einmilt í samræmi við ræðuna, sem ég flutti í gær, að ástæða sé til að gefa því gaum, að siðgæðið á Íslandi hefur fallið jafnört og gengi íslenskrar krónu, Það er engin tilviljun að hér hafa gerst atburðir af ógnarlegu tagi einmitt af þessum sökum. Og menn skulu sannarlega ekki gleyma því, að síðgæði er undirstaða hvers heilbrigðs þjóðfélags. Siðgæðishugmyndir breytast í samræmi við atvinnuhætti og framleiðsluaðstæður, en siðgæðishugmyndir verða að gagnrýna samfélög, sem vilja halda lífi, og einstaklinga, sem vilja halda lífi.

Ég lýsti því í ræðu minni í gær, að ég teldi þá gjaldheimtu, sem felst í þessu frv., vera félagslega rangláta. Þarna er um að ræða svokallaðan flatan skatt, og menn greiða hann þó þeir hafi ákaflega lágar tekjur. Hann hækkar að vísu með tekjustigi manna. En ég vil minna hv. alþm. á það, að til er fólk á Íslandi sem hefur mjög lágar tekjur og verður samt að borga útsvar. Fyrir þetta fólk er þungbærara að borga 4 eða 5 þús. kr. á ári en fyrir suma, sem hærri tekjur hafa, að borga 40–50 þús. Það er þessi mælikvarði sem skiptir máli, Það er burðargeta þegnanna, en ekki nein upphæð. Þess vegna er þessi gjaldheimta gjörsamlega andfélagsleg.

Ég rakti það í gær, að þessi gjaldheimta er afleiðing af verðbólgustefnu núv., ríkisstj., sem gerir það að verkum að engir gjaldstofnar geta haldið sér. Ég varaði við hugmyndum sem uppi væru um að skerða réttindi fólks, sem skiptir við Tryggingastofnun ríkisins, og fólk, sem skiptir við heilbrigðiskerfið, Þær raddir hafa sannarlega verið uppi og ég er samþykkur því að í því efnahagsöngþveiti sem hér er, verður að halda uppi þessari félagslegu þjónustu og þyrfti raunar að bæta hana stórum. En til eru aðrar fjáröflunarleiðir en þessi. Ég held að til að munda að það væri ákaflega einföld leið að ferla hæstv. viðskrh. og dómsmrh. að leysa þetta mál. Fyrir liggur að hæstv. ráðh. eða embættismenn hans hafa fengið skýrslur um það, að íslenskir aðilar eigi mörg hundruð millj. kr. í dönskum bönkum í trássi við lög. (Gripið fram í: Þetta er misminni. Það er fjmrh. sem hefur fengið skýrsluna.) Hann hefur fengið hana, en þetta er verksvið hæstv. dómsmrh. og það er skylda hans að fjalla um þetta. Þarna er um að ræða ákaflega háar fjárhæðar að mínu mati. það fé sem finnst í Danmörku er ákaflega lítill hluti af því sem er komið undan.

Ég vil minna á það, að fyrirrennari hæstv. dómsmrh., Hermann heitinn Jónasson, hélt ræðu, að mig minnir 1946 austur í Hornafirði, og þar greindi hann frá því mati sínu, að eignir Íslenskra peningamanna erlendis næmu 400 millj. kr. Ef við umreiknum þessa tölu miðað við breytingar á gengi dollarans og krónunnar síðan þá mundi þessi upphæð nema um 12 milljörðum kr. nú. Síðan þetta var hafa þjóðartekjur Íslendinga aukist mjög mikið og viðskipti okkar við útlönd aukist mjög mikið, þannig að ég er ekki í neinum vafa um að fjármunir, sem þannig hefur verið stolið undan og geymdir eru í féhirslum erlendis, nema tugum milljarða kr. Þessa peninga á að gera ráðstafanir til þess að hirða. Það er skylda hæstv. ríkisstj. að gera það, og það er sérstök skylda hæstv. dómsmrh., sem ég ávarpaði hér áðan, að gera það. Þarna er um að ræða siðspillingu sem er háskaleg og ekki á að þola.

Ég hlustaði á hæstv. viðskrh. og dómsmrh. ræða um þessi mál í sjónvarpi í gærkvöld. Hann svaraði þar spurningum. Svör hans voru loðin og blendin. Ég þykist þekkja hæstv. ráðh. býsna vel, og ég hef talið, að hann hefði ríka siðgæðiskennd, af kynnum mínum við hann, vegna þess að hann er á þeim aldri og vegna þess að hann ólst upp í sveit. En þessi siðgæðiskennd virtist ekki vera ýkja-fyrirferðarmikil í sjónvarpsviðtalinu í gær. Svör hans voru loðin og blendin, þó um sé að ræða þjófnað af Íslenska þjóðarbúinu og öllum þegnum íslensku þjóðarinnar, sem nemur tugum milljarða ísl. kr. Hægt væri í að leysa allan fjárhagsvanda ríkissjóðs, jafnvel á þessum óðaverðbólgutímum, með því að ná í þó ekki væri nema hluta af þessu fé.

Ég er hér að benda á fjáröflunarleiðir og það sæmilegri fjáröflunarleiðir en að leggja byrðar á fátækasta fólkið í landinu vegna óðaverðbólgu einnar saman.

Um þetta mál voru haldnir tveir fundir í heilbr: og trn. og það voru dálitið einkennilegir fundir. Á næsta ári eru liðin 30 ár síðan ég settist fyrst inn hér á Alþ. Ég hef ekki setið samfellt síðan þá, en endrum og eins og samfellt nú um nokkurt skeið. En þessir fundir í fyrradag voru einkennilegustu nefndarfundir sem ég hef setið á. Á þá komu tveir embættismenn, ríkisskattstjóri og málsvari sveitarfélaganna, framkvæmdastjóri þeirra. Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélag ítrekaði þar þau sjónarmið sem alþm. þekkja, að sveitarfélögin telja að með þessari gjaldheimtu sé ríkissjóður að seilast inn á svið sveitarfélaganna og gera þeim erfiðara fyrir að leysa verkefni sín. Ég benti ríkisskattstjóra á það, að undanþáguákvæðin í þessu frv, væru mun þrengri en undanþáguákvæði þau sem gilda um álagningu útsvara, og ég benti honum sérstaklega á aldrað fólk í því sambandi. Ríkisskattstjóri viðurkenndi þetta. Ég lagði til að n. breytti þá frv, þannig, að þessi skattheimta legðist ekki á aldrað og snautt fólk í ríkara mæli en útsvörin, Þetta fékk engar undirtektir á fundinum sjálfum. Svo gerist það þegar nál. kemur hér frá meiri hl. n., að þá er þetta atriði tekið upp, breyting í þessa átt. En þetta gerði meiri hl. án þess að ræða við mig og væntanlega án þess að ræða við hv. þm. Karvel Pálmason. Þetta eru vinnubrögð sem ég vil telja óþingleg með öllu. Ég kann ekki þingsköp Alþingis utan að, en ég held að það hafi alltaf verið háttur þingnefnda og eigi að vera háttur þeirra að leggja till. af þessu tagi fyrir n. í heild, en ekki að nokkur hluti nm. pukrist, eftir að störfum n. á að heita lokið.

Ég varð var við það í n., að það var enginn þar sem reyndi að verja þessa gjaldheimtu hæstv. heilbrrh. Ég gagnrýndi hana þar, með fáeinum orðum að vísu, á þessum félagslegu forsendum sem ég reyni að gera grein fyrir. En það var enginn fundarmanna, enginn nm., sem reyndi að segja eitt einasta orð til varnar þessari skattheimtu. Og ekki nóg með það, einn nm. Guðmundur H. Garðarsson, gekk af fundi og sagðist mundu neita að skrifa undir álit meiri hl. Það hefur breyst, eftir að þessi breyting kom inn sem ég gerði grein fyrir, en þetta sýnir að það var engin ánægja með þetta frv. hjá stjórnarþm. í n. og ég skil það ákaflega vel, Það kom einnig fram í n., að það var enginn nm. sem vildi hafa framsögu. Þeir neituðu allir að hafa framsögu. Það tókst svo að leysa það. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir tók þetta að sér. En þarna kom fram það sem ég hef orðið var við í viðtölum við þm., að hér er um að ræða gjaldheimtu sem örugglega á ekkert meirihlutafylgi hér á Alþ. ef þm, fylgdu því ákvæði stjórnarskrárinnar á taka tillit til samvisku sinnar. Hér er um að ræða ranga gjaldheimtu, háskalega gjaldheimtu, vegna þess að þarna er verið að ana áfram út á verðbólgubrautina enn frekar en orðið er, og ætti mönnum þó að fara að skiljast, að þar er verið að komast á ystu þröm.

Ég held að það sé kominn tími til þess, að hv. þm. stjórnarflokkanna líti dálítið alvarlega í eigin barm og láti ekki allt yfir sig ganga. Ég hef lýst því áður hér á þingi, að ég tel stjórnmálaflokka vera undirstöðu eðlilegra stjórnmálastarfsemi í landinu. Og í stjórnmálatlokkum verða menn að sjálfsögðu að taka tillit hver til annars, en aðeins á þeim grundvelli sem sameiginlegar hugsjónir kunna að marka. Mér virðist að þm. stjórnarflokkanna séu komnir langi út fyrir þessi takmörk. Þeir greiða hér atkv. aftur og aftur með málum sem þeir eru andvígir í raun og veru, .og slík vinnubrögð eru ákaflega háskaleg framtíð Alþingis að minni hyggju.

Ég læt svo máli mínu lokið, hæstv. forseti.