02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í fjarveru hv. 8. landsk., Sighvats Björgvinssonar, sem vakti mál þetta utan dagskrár, færi ég hæstv. viðskrh. þakkir fyrir það, hversu fljótt og vel hann hefur brugðist við óskum þm. Ég lýsi einnig ánægju minni yfir því viðhorfi sem hæstv. ráðh, lýsti í lok skýrslu sinnar um ástæður alþingis til að fylgjast vandlega með máli eins og þessu, þegar í hlut á höfuðviðskiptabanki þjóðarinnar sem lýtur æðstu stjórn þingsins.

Þau bréf, sem hæstv. ráðh, las upp, fela í sér svör við þeim spurningum sem fram voru lagðar, og mér virðist eftir skjótan yfirlestur svo og að hafa hlýtt á þau, að veittar séu eins ítarlegar upplýsingar og við er að búast á þessu stigi, þar sem rannsókn málsins stendur yfir. Engu að síður þótti hv. 8. landsk, og raunar þingflokki Alþfl., sem fól honum að vekja málið,rétt að láta umhyggju Alþingis og áhuga koma fram þegar á frumstigi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að þetta er ekki eina málið af þessari tegund, sem þjóðin hefur haft fréttir af nú undanfarið, og að það er á hvers manns vitorði, að ýmiss konar fjármálaóreiða er hér hin mesta þjóðarmeinsemd. Það þarf að gefa þessu miklu nánari gaum en gert hefur verið, og ég hygg að við þurfum að íhuga hvort ekki er annt að taka baráttu gegn þessari þjóðarmeinsemd, fjármálaóreiðunni, fastari tökum en gert hefur verið.

Við erum ekki einstakir hvað snertir vandamál af þessu tagi. Þau virðast vera til í flestum grannlöndum okkar og eru þar yfirleitt kölluð einu nafni „efnahagsleg afbrot“. Rannsóknir, sem gerðar hafa verið, t.d. á Norðurlöndunum, hafa leitt kunnuga til að fullyrða opinberlega í skýrslum, að viðkomandi þjóðir tapi mörgum sinnum meira fé vegna efnahagslegra afbrota af ýmsu tagi heldur en vegna þeirra aflnota: þjófnaða, innbrota, rána og annars sem lögregla á við að stríða frá degi til dags og oft vill bera miklu meira á í fréttum fjölmiðla heldur en hinum efnahagslegu afbrotum sem fara hljótt, oft hylmað yfir, bæði hér á landi og annars staðar, og mjög sennilegt er að aldrei uppgötvist.

Það, sem ég hef getað útvegað mér af upplýsingum um viðhorf á þessu sviði, bendir til að menn hugsi til gagnráðstafana til þess að reyna að draga úr þessari plágu eða útrýma henni, ef þess er nokkur kostur, Þær ráðstafanir má flokka í fernt. Í fyrsta lagi hefur verið gripið til þess að setja upp sérstakar lögregludeildir sem eru sérhæfðar til að fjalla um þessi mál og hafa á að skipa mönnum með sérmenntun sem auðvitað er víðs fjarri þeirri þjálfun, sem götulögreglumenn hafa. Ég get sem dæmi bent á að nefnd háttsettra embættismanna í Svíþjóð, sem nýlega fjallaði um þetta mál, gerði þá till., að þar yrðu þegar settar upp fjórar slíkar lögregludeildir í landinu og þær fái til að byrja með á annað hundrað sérmenntaðra manna. Þar er fram tekið, og þar kemur að lið nr. 2. að slíkar lögregludeildir hljóti að hafa mjög náið samstarf við skattayfirvöld, þær deildir þeirra sem annast baráttu gegn skattsvikum, vegna þess að reynsla sýnir, að ítarleg athugun eða leit að hugsanlegum skattsvikum er oft greiðasta leiðin til að komast á snoðir um ýmis af þessum afbrotum, T.d. er svo þegar fram kemur að einstaklingar lifa við lífskjör sem ekki eru í neinu samræmi við sýnilegar teknir þeirra.

Það hefur einnig fylgt þessari sömu skýrslu í Svíþjóð, að þrátt fyrir mikinn sparnað í opinberum rekstri, sem stjórn Fälldins nú hefur í frammi, er áberandi hversu fjölgað er starfsmönnum á þessum tveimur sviðum, annars vegar í lögregludeildum til að fjalla um þessi mál og hins vegar og enn meir við skattrannsóknir.

Þrátt fyrir slíkar aðgerðir taka þeir menn, sem um þetta fjalla, samkv. þeim heimildum, sem ég hef getað fundið, skýrt fram, að beinar ráðstafanir lögregludeilda og skatteftirlits geti sennilega aldrei komist fyrir meinið að fullu og til viðbótar verði að endurskoða margvísleg lög sem fjalla um starfshætti í viðskiptalífi, sérstaklega með tilliti til þess að fyrirbyggja, að þar séu ákvæði, sem á einhvern hátt er hægt að fara í kringum, eða að þar séu ekki nægilega ströng ákvæði um þau atriði, þar sem helst er að kunnugustu manna yfirsýn hætta á efnahagslegum afbrotum.

Einn flokkur gagnráðstafana er svipaður því sem stjórn Landsbankans segir okkur í bréfinu að hún hafi nú þegar gripið til í vaxandi mæli. Það eru stjórnunaraðgerðir, ströng innri endurskoðun í stórum fyrirtækjum og alveg sérstaklega að flytja menn til í störfum með vissu árabili, Þetta getur að vísu reynst erfitt í litlu þjóðfélagi, þar sem fyrirtæki eru tiltölulega lítil á mælikvarða annarra landa.

Um leið og hæstv, ráðh. hefur gefið skýrslur, sem ég þakka honum fyrir og tel að séu eins ítarlegar og framast er hægt að búast við á þessu stigi, get ég ekki annað en bent á heildarmynd málsins. Við verðum að viðurkenna að fyrr eða síðar verður að taka það mun fastari tökum heldur en við höfum gert. Hvaða aðferðum verður heitt, hvort það verða þær sömu og í grannlöndum okkar, skal ég ekki ræða á þessu stigi.

Ég ítreka að ég tel ekki rétt að láta fram fara umr. um einstök atriði málsins, jafnvel ekki þau sem fram koma í bréfunum, á meðan rannsóknin er í fullum gangi. En við viljum sýna umhyggju og áhyggjur Alþ. með því að fylgjast með þessu máli svo vel sem kostur er.