06.02.1978
Efri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

166. mál, viðskiptabankar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera örfáar aths. við mál hæstv. viðskrh. áðan. Mér þótti satt að segja heldur kynlegt að hlýða á þá fullyrðingu hans, að ekki væri fullt mark takandi á niðurstöðum bankamálanefndarinnar svonefndu, vegna þess að í henni hefðu verið annaðhvort þáverandi bankastjórar eða væntanlegir bankastjórar. Ég hélt einmitt að slíkir menn mundu hafa meira vit á þessum málum heldur en aðrir og þar af leiðandi væru ráð þeirra sérlega vel þegin og vel grunduð. Út af fyrir sig er það alveg rétt hjá ráðh., að slíkir menn kynnu að hafa einhverja tilhneigingu til að halda fast utan um sitt og tryggja að þeirra ríki skerðist í engu, og vissulega ber að gjalda varhug við öllum tilhneigingum í slíka átt. En nú vill svo til að stefna þessara ágætu bankastjóra stefndi einmitt í þveröfuga átt. Þeir voru reiðubúnir að standa að því að dregin yrðu saman seglin í bankakerfinu, að bankastjórum og bankastarfsmönnum yrði fækkað, en ekki að þar yrði um aukningu að ræða. Og ég held að einmitt þess vegna hefðu ráð þeirra átt að vera vel þegin og ekki hefði þurft að vera nein tortryggni í þeirra garð varðandi þeirra ráð. (Dómsmrh.: Þau voru það.) Þau voru vel þegin af sumum, en ekki af öllum, því miður. Og þar kem ég þá að því atriði, sem hann gerði sér hvað mestan mat úr, þ.e.a.s. því atriði, hvernig háttað var flutningi þessa máls í tíð vinstri stjórnarinnar.

Eins og hæstv. ráðh, veit allra manna best, voru það þrír stjórnmálaflokkar sem áttu aðild að þeirri ríkisstj. Og hann veit bað jafnvel og ég, að það var ekki neinn ágreiningur um flutning þessa máls og fylgi við það innan Alþb. og innan SF. Andstaðan kom öll úr Framsfl. Þetta er söguleg staðreynd sem í sjálfu sér þarf ekki að rifja upp fyrir mönnum, svo kunn sem hún er. Hitt er alveg rétt, að mér varð á sú skyssa áðan að tala um það frv., sem flutt var, sem frv. flutt af viðskrh., en hef nú fengið og við allir hv. þm. leiðréttingu á því. Þetta var misminni hjá mér. Frv. var flutt af ríkisstj. allri, en með mjög óvenjulegum fyrirvara — mjög óvenjulegum og sérkennilegum fyrirvara. Fyrirvarann er að finna í grg. og reyndar var hann lesinn upp áðan. Ég hefði að vísu gjarnan viljað vitna til þeirra orða, en sé nú ekki í fljótu bragði hvar hann mundi helst vera að finna í grg. (Gripið fram í.) Jú, hér er það fundið. Það er þannig orðað, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að frv. sé flutt sem stjfrv. skal það skýrt tekið fram, að einstakir stuðningsmenn ríkisstj. hafa óbundnar hendur varðandi afstöðu til einstakra þátta málsins og afgreiðslu þess í heild.“

Ég leyfi mér að fullyrða, að slíkur fyrirvari er heldur óvenjulegur. Þótt dæmi séu um slíka fyrirvara endrum og eins, þá er mjög óalgengt að setja þurfi slíka fyrirvara í grg. stjfrv, Og það var auðvitað þessi fyrirvari sem öllu máli skipti. Frv. fékkst ekki flutt mánuðum saman vegna tregðu af hálfu forustumanna Framsfl., sem út af fyrir sig kunna að hafa sínar persónulegu skoðanir á málinu. Þær hafa að vísu komið heldur óljóst fram. En vegna þess að þingflokkur Framsfl, var ekki reiðubúinn að veita þessu máli stuðning, þá dróst úr hömlu að það væri flutt, og að lokum fékkst það því aðeins flutt að slíkur fyrirvari fylgdi. Það er þetta sem skiptir máli. Hitt, þótt mér yrði á það misminni að nefna frv. þmfrv., skiptir raunverulega miklu minna máli, því að það breytir ekki neinu um þann kjarna málsins, að fyrirvarinn, að tregðan við að samþykkja frv. átti uppruna sinn innan þingflokks Framsfl. Þessu veit ég að hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að mótmæla. Þetta er líka aðalatriði málsins.

Hæstv. ráðh. vék áðan að því, að slagorð mikið væri uppi, svonefnt „báknið burt“. Það er rétt, slíkt slagorð er uppi og hefur víða heyrst, þó að einn stjórnmálaflokkur hafi kannske viljað taka það sér í munn fremur öðrum og aðrir hagi kannske orðum sínum nokkuð á annan veg. En þetta slagorð hefur fengið sérstaka stjórnskipaða brautryðjendur, þar sem er stjórnskipuð n. sem hefur til umfjöllunar hugsanlega afhendingu og sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins. Mér finnst það mjög við hæfi að hæstv. ráðh. skyldi minnast á þetta slagorð, vegna þess að það er einmitt mismunandi túlkun á því, sem skilur að stefnu okkar Alþb: manna annars vegar og stefnu þeirra sjálfstæðismanna hins vegar. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé rangt og óskynsamlegt að selja arðgæf atvinnufyrirtæki í eigu ríkisins úr eigu þess. Við teljum hins vegar bráðnauðsynlegt að hreinsa til í bankabákninu, í olíudreifingarbákninu og í ýmsu öðru því kerfi sem hróflað hefur verið upp á umliðnum áratugum. Hvar stendur Framsfl. í þeim átökum sem um þetta mál standa? Því miður eru ekki sjáanleg merki þess, að Framsfl. hafi skipað sér á hina skynsamlegri sveif í þessu máli. Í hinni stjórnskipuðu n., sem fjallað hefur um sölu og afhendingu ríkisfyrirtækja, á einn ágætur hv. þm. þessarar d. sæti, hv. þm. Ingi Tryggvason, sem fulltrúi Framsfl., og n. hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegt sé að selja eða afhenda ríkisfyrirtækið Siglósíld í hendur annarra aðila. Þetta virðist vera dæmigert um afstöðu Framsfl. til þessara mála. Hann er reiðubúinn til þess að ráðast á arðgæf atvinnufyrirtæki í eigu ríkisins og láta þau af hendi. En þegar kemur aftur að hinu eiginlega ríkisbákni, því eina og sanna bákni sem er einhver byrði á þjóðinni, einhver byrði á ríkinu, þá má ekki hreyfa við einu eða neinu, eins og í sambandi við bankakerfið.

Ég vil svo segja að lokum, að það var síður en svo að ég væri að átelja það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., þegar hann hvatti hv. fjh.- og viðskn, til góðra starfa og sjálfstæðra starfa. Það var síður en svo að ég væri að átelja hann fyrir að hafa uppi slík hvatningarorð til þessarar n. En hitt er allt annað mál, að ég hefði miklu frekar kosið og talið það gæfulegra fyrir framgang málsins, að ríkisstj. og hæstv. viðskrh. hefðu haft einhverja forustu í þessu máli, hefðu markað einhverja ákveðna stefnu, en kæmu ekki með losaralegt og innihaldslítið frv. og segðu við þm.: Þið getið gert úr þessu það sem ykkur dettur í hug og ykkur list best á, og ég hvet ykkur til þess að vinna vel og láta ykkur detta eitthvað gott í hug. — Það hefur verið háttur ríkisstj. að reyna að hafa forustu í þessu landi, ekki það að ríkisstj, eigi að segja Alþ. fyrir verkum, en það er hins vegar gæfulegt að ríkisstj. hafi ákveðna stefnu í málum og Alþ. geti síðan tekið afstöðu með og móti þeirri stefnu og hnikað henni til á einhvern ákveðinn hátt. Hitt er fremur nýmæli, að lagt sé fram, eins og ég sagði áðan, innihaldslitið frv. og sagt svo við þm.: Gerið það besta úr þessu, ef ykkur sýnist svo. — Það er ekki nægilega vel að málum staðið.

Ég vil segja það að lokum, að innan þessarar n. mun svo sannarlega ekki standa á okkur Alþb.- mönnum að láta til okkar taka. Við munum vafalaust flytja brtt. í þá átt, að bankar verði sameinaðir, þegar þetta mál kemur til 2. umr., ef það verður einhvern tíma.