16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Miklar umr. hafa spunnist um 3. gr. í frv. ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í efnahagsmálum, en þar er lagt til að frá og með 1, jan. 1979 skuli óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum. Fulltrúar launþegasamtaka hafa af ýmsum ástæðum lýst ákveðinni andstöðu sinni við þetta ákvæði.

Skoðun og rök ríkisstj. fyrir þessari till. eru skýr og þarf ekki að endurtaka þau. Núv. vísitöluákvæði hafa óæskileg áhrif á stefnuna í skattamálum, auk þeirrar hættu á víxlhækkun kaupgjalds og verðlags sem þau fela í sér. Það er athyglisvert, að nær allir, sem til máls hafa tekið í umr. um þetta mál, telja vísitölukerfið meingallað. Ríkisstj, telur því rétt að taka verðbótaákvæði í kjarasamningum til allsherjarendurskoðunar og þar með vísitölugrundvöllinn og vill vinna að þessu máli í samráði við samtökin á vinnumarkaðinum, þannig að ný skipan geti komið til framkvæmda frá upphafi næsta árs.

Í samráði við ríkisstj. hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. lagt til, að 3. gr. frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum verði felld burt, og vill ríkisstj. með því sýna að hún er reiðubúin til samráðs um framtíðarskipan þessa mikilvæga þáttar í ákvörðun launa.