01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

311. mál, sjónvarp

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, að það er fagnaðarefni að þessu máli er hér hreyft. Hins vegar komu fram hjá hæstv. menntmrh. heldur óljós svör um hvað í deiglunni væri og eins að því er varðaði tölulegar upplýsingar um fjárhagslega stöðu Ríkisútvarpsins.

Ég vitna sérstaklega í 1. grein umtalaðrar skýrslu um sjónvarp til allra landsmanna því að þar kemur fram mergurinn málsins, en hann hljóðar svo, með leyfi forseta: „Lokið verði við að koma sjónvarpi til allra notenda á landi á næstu 4 árum, 1917–1980, og hafin bygging endurvarpsstöðvar fyrir fiskimiðin árið 1979.“ Á þennan þátt, síðasta lið þessarar tillgr., um byggingu endurvarpsstöðvar fyrir fiskimiðin var ekki minnst hér áðan né í svari hæstv. menntamrh., og væri fróðlegt að heyra frá honum hvort nokkur sérstakur undirbúningur að því sérstaka verkefni er hafinn.

Hér er um að ræða eins og annars staðar spurningu um peninga. Og þegar ég á sínum tíma greiddi því atkv. að tekin yrði upp sjónvarpssending í lit, þá var það einungis vegna þess að ég taldi það í rauninni einu færu leiðina til að afla tekna til þess að koma dreifikerfinu um allt land í sómasamlegt lag. því taldi ég það þröngsýni að hafna hugmyndinni um útsendingu í litum. Það hefur sýnt sig að litvæðingin hingað til hefur farið nokkuð fram úr áætlun, kostað 80 millj., og ég hjó eftir því í orðum hæstv. menntmrh., að næsta skerf í litvæðingunni væri hugsanlega kaup á vélum til að senda út í lit. Kostnaður við slík vélakaup var ekki upplýstur, en mér finnst liggja beint við að áður en lagt er út í meiri kostnað til þess að koma á litaútsendingu, fullkomnari en hún er í dag, þá beri okkur skylda til að einbeita okkur að því að koma þessum 400 sveitabæjum og sjómönnunum á miðunum í sjónvarpssamband. Ég held að um það geti varla orðið ágreiningur. Víst ber að fagna því sem er á áætlun fyrir næsta ár, þó að það verði auðvitað hvergi nærri fullnægjandi.