01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

324. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í áfengisvörnum

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. og þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls í framhaldi af fsp., sem hér var flutt, og skýrslu ráðh. Komið hefur á daginn nú, eins og reyndar oft áður við sömu kringumstæður hér á hv. Alþ., að menn eru sammála um þá áherslu sem leggja beri á fyrirbyggjandi ráðstafanir, þ.e.a.s. til að koma í veg fyrir ofneyslu áfengis, a.m.k. allt sem í mannlegu valdi stendur og við getum sjálf breytt. Það er einnig rétt, að nú virðist vera meiri vakning í þessum efnum en oft áður, svo sem áhugamannasamtökin nýstofnuðu bera e.t.v. ljósast vitni um og sá fjöldi fólks sem hefur lagt fram krafta sína þar, en áður hafði ekki til verka gengið til lausnar þessum málum.

En mér finnst eitt vanta í þessar ágætu og jákvæðu umr. okkar alltaf, bæði fyrr og nú. Við tölum um fyrirbyggjandi ráðstafanir og að fá til liðs við okkur fjölmiðlana. Úr veldi þeirra skal ekki dregið, síst af öllu í þessum efnum. Alveg eins og hægt er að afvegaleiða fólk með rangtúlkun þessa vandamáls þar, þá má einnig leiða fólk inn á réttar og heillavænlegri brautir. En ég held að það sé eitt atriði sem alltaf vill gleymast í þessum umræðum um fyrirbyggjandi ráðstafanir þegar þær eru á döfinni, og það er sjálf kennslan í kennaraháskólanum. Þar er upphafið að því að nemendur geti fengið hina réttu og sönnu fræðslu í þessum efnum, að kennararnir séu svo í stakk búnir, þegar þeir hefja sín störf, að þeir hafi þar nokkuð fram að færa. Ég vildi því eindregið mælast til þess að hæstv. menntmrh. legði á það ríka áherslu, umfram það samstarf sem hann lýsti hér áðan að komið væri á með bindindisfélagi kennara, að festa ásamt öðrum námsgreinum í kennaraháskólanum dyggilega fræðslu um þessi efni. Það eru þeir aðilar sem koma til með að miðla unglingunum af þekkingu sinni og reynslu og koma næst fjölmiðlunum að áhrifum og afli, svo að einhvers árangurs má þar vænta. Það er ekki nóg að ræða þessi mál í sjálfum unglingaskólunum, á unglingastiginu, ef það er ekki gert af mönnum sem hafa það að veganesti frá sínum eigin skóla og miðla síðan á raunhæfan og feimnislausan hátt.