27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4085 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj. hefur mörg járn í eldi þessa seinustu starfsdaga Alþ. Orrusta er í aðsigi og víkurnar, sem nú eru að líða, gætu orðið síðustu ævidagar þessarar stjórnar. Á slíkum stundum hafa höfðingjar stundum tíðkað að bregða sér í betri fötin og deila og drottna í ríkari mæli en hversdagslega. Hver fær þá nokkuð við sitt hæfi og svo er enn.

Á þessari kveðjustund, áður en lagt er í bardagann, getur fáum dulist hverjir eru í náðinni hjá núv. ríkisstj. og hverjir ekki. Það dylst t. d. ekki, að þessa stundina nýtur ein stétt manna meiri sóma af hálfu þingmeirihl. Sjálfstfl. og Framsfl. en nokkur önnur. Þetta er kaupmannastéttin, heildsalar og verslunareigendur, sem nú fá loksins uppfylltan sinn óskadraum eftir áratuga bið, þ. e. nýja löggjöf utan frjálsa álagningu að vissum skilyrðum uppfylltum.

Á það hefur verið bent, að verðbólgan rugli verðskyni almennings frá degi til dags og geri eftirlit af hálfu neytenda útilokað. En á slíkt er ekki hlustað. Með því einu skilyrði, að unnt sé að halda því fram að einhver málamyndasamkeppni sé fyrir hendi, fær kaupmannastéttin vilyrði fyrir því af hálfu stjórnvalda, að mega að 6 mánuðum liðnum skammta sér laun úr vasa neytenda að eigin geðþótta. Svo eru aftur aðrir og fjölmennari hópar á óæðri bekk sem hljóta trakteringar af allt öðru tagi og hafa raunar þegar fengið sinn skammt. Þetta eru launamennirnir sem sömdu um kjör sín í frjálsum samningum á liðnu sumri. Það eru víst þeir sem lifað hafa um efni fram að dómi Ólafs Jóhannessonar, sbr. orð hans hér áðan. Þeim hefur hlotnast sá heiður með lagasetningu frá Alþ. að eiga að vinna einn mánuð á árinu kauplaust miðað við gerða kjarasamninga. Þannig er gjöfunum útdeilt og sumir eru þakklátir og kátir, aðrir ekki.

Þeir, sem eiga hlutabréf í stórum stíl, eru meðal kátari manna þessa dagana. Þeirra hlutur er fólginn í nýja skattafrv. sem verið er að þjösna gegnum Alþ. á seinustu dögum kjörtímabilsins. Frv. tekur að vísu ekki gildi við álagningu skatta fyrr en á miðju næsta kjörtímabili, árið 1980, en betra er seint en aldrei. Oft hefur eigendum hlutabréfa verið lofað ýmsu sem ekki hefur orðið að veruleika. Nú er þeim heitið skattfríðindum umfram alla aðra sem fólgin eru í því, að arður, sem nemur 1/2 millj, á hjón, verður dreginn frá tekjum áður en skattur er lagður á. Þetta verður enn ein smugan sem ýmsa gleður, enn ein glufan í götóttu skattkerfi, ætluð til að auðvelda hópi manna að velta af sér skattbyrði yfir á aðra.

Frá eigendum hlutabréfa hverfum við svo aftur í hóp þeirra þjóðfélagsþegna sem meðtaka gjafir stjórnvalda þessa dagana með lítilli gleði. Í heim hópi, meðal margra annarra, standa bændur sem stunda sauðfjárbúskap. Þeir hafa einmitt verið að frétta undanfarna daga, að þeir hafi fengið reikning sendan frá Framleiðsluráði að upphæð um 1000 kr. á hvern dilk sem þeir lögðu inn til slátrunar á liðnu hausti. Vafalaust má víða leita skýringa á þessum bakreikningi, m. a. í því skipulagsleysi og stefnuleysi sem verið hefur ríkjandi í landbúnaðarframleiðslu. En þó er ein nærtækasta skýringin fólgin í tregðu stjórnvalda á liðnu ári að afnema söluskatt af kjötvörum. Sumargjöf stjórnvalda til bænda, sem sauðfjárbúskap stunda, nemur um það bil 1/2 millj. kr. á hvert meðalbú og teflir fjárhagslegri afkomu hundraða bænda í hreina tvísýnn. Sagt er að ríkissjóður hafi ekki efni á að lækka vöruverð og vinna gegn verðbólgu með því að afnema söluskatt af kjötvörum. Sama svar er almennt gefið af hálfu stjórnvalda í hvert sinn sem hagsmunir vinnandi stétta eiga í hlut. Ekki er unnt að gera allt fyrir alla, sagði Ólafur Jóhannesson hér áðan — og þó.

Lítum á enn einn hópinn. Okkur er sagt að ríkissjóður hafi ágætlega efni á að sjá á bak nokkrum þúsundum millj. kr. á þessu ári og hinu næsta með óbreyttum ákvæðum laga um skattlagningu fyrirtækja sem greiða lítinn eða engan tekjuskatt. Það er ekki sama að heita Jón og séra Jón.

Eins og ég hef þegar nefnt eiga nýju skattalögin hvorki að gilda við álagningu skatta í sumar né næsta sumar. Lögin taka aðeins gildi hvað varðar nokkur atriði í bókhaldi fyrirtækja í byrjun næsta árs, en það er almennt viðurkennt í fjh.- og viðskn. beggja d., að álagningin sjálf fari áfram eftir gömlu lögunum til ársins 1980. Fátt bendir raunar til þess, að nýju lögin auki skattgreiðslu fyrirtækja, nema síður sé, en það kemur þó ekki á daginn fyrr en á reynir. En þeir, sem trúa því í raun og veru, að nýju lögin snerti frekar við hagnaði fyrirtækja en þau gömlu, ættu að sjálfsögðu að fallast á till. okkar Alþb: manna um breytingar á fyrningarreglum og öðrum helstu ívilnunarreglum gildandi skattalaga, svo að leiðrétta megi að einhverju leyti það misrétti sem í því felst að sleppa undan skatti veltu sem nemur mörgum hundruðum milljarða kr. á næstu tveimur árum. Þó er sýnt að svo verður ekki. Aðgerðaleysi Sjálfstfl. og Framsfl. í skattamálum stórfyrirtækja er einmitt nýjasta dæmið af mörgum, sem nefna mætti, sem sýnir einkar skýrt hvernig gjöfunum er útdeilt af hálfu þessarar stjórnar í anda íhaldsstefnu og þjóðfélagslegs ranglætis.

Ýmsir stuðningsmenn þessarar stjórnar, ekki síst í hópi Framsóknar, töldu sér trú um fyrir 4 árum að stjórnarsamvinna þessara flokka með sterkum þingmeirihl. væri nauðsyn til að vinna bug á verðbólgunni. En er hugsanlegt að nokkur stjórn hefði farið verr að ráði sínu en þessi stjórn, sem hefur náð þeim ótrúlega árangri að meira en þrefalda vöruverð á tæpum 4 árum?

Á seinasta ári vinstri stjórnar fór mikil verðbólgualda um allan hinn kapítalíska heim. Þá urðu verðhækkanir í öllum nálægum löndum tvísvar til þrisvar sinnum meiri en þær höfðu áður verið. Olían fjórfaldaðist í verði og timbur, stál og hvers konar hráefni tvöfaldaðist í verði á undraskömmum tíma. Auðvitað varð ekki hjá því komist, að áhrif þessarar einstæðu verðbólgu í öllum nálægum löndum næðu einnig til Íslands. Á árinu 1974 hækkuðu innfluttar vörur í verði samkv. opinberum skýrslum um 34% miðað við fast gengi. Þá fluttum við inn verðbólgu á hverjum einasta degi og þurfti engan að undra þótt erfiðleikar sköpuðust í íslensku efnahagslífi við svo óvenjulegar aðstæður.

En fljótlaga eftir að núv. ríkisstj. komst til valda var þessi alþjóðlega verðbólga gengin hjá garði. Innfluttar vörur hafa aðeins hækkað um 5% að meðaltali á ári seinustu þrjú árin miðað við fast gengi. Að sjálfsögðu átti verðbólgan að hjaðna aftur hér á landi sem annars staðar, a. m. k. niður í 10–12% eins og hún áður var. En þetta hefur ekki gerst, eins og kunnugt er. Og enn er verðbólgan fast að 40%. Það er sérstaklega athyglisvert, að engu breytti þótt almenn launakjör væru skert um 25–30% á fyrri hluta kjörtímabilsins og öllum bæri saman um að verkalýðshreyfingin hefði sýnt ítrustu þolinmæði og langlundargeð.

Nú er ljóst að stjórnarflokkarnir hafa gersamlega gefist upp í viðureigninni við verðbólguna og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Á flestum sviðum efnahagsmála er upplausnarástand ríkjandi og ríkissjóður og fyrirtæki hans í einstæðum kröggum. Víða gætir svartsýni og kvíða og ótrúlega margir eru farnir að trúa því, að íslenska verðbólgan sé eins konar náttúrulögmál sem enginn ráði við, eða eins og segir í helgu riti: Vindurinn blæs hvar sem hann vill. Þú heyrir þytinn, en ekki veistu hvaðan hann kemur eða hvert hann fer. — En ætli við þurfum að efast um hvaðan á okkur stendur veðrið þegar íhaldsgusturinn leikur um þjóðlífið.

Meinsemdin felst í núverandi stjórnarstefnu og orsakirnar blasa við augum. Í nýlegri og mjög ítarlegri stefnuyfirlýsingu, sem miðstjórn Alþb. hefur nýlega samþykkt og birt verður innan fárra daga, er bent á fjöldamargar orsakir núverandi efnahagsvanda, beinar og óbeinar, t. d. skipulagsleysi fjárfestingar, stjórnleysi í fjármálum ríkisins, götótt skattkerfi, haldlítið verðlagseftirlit, rándýra milliliðastarfsemi. En sérstaklega er bent á látlausa viðleitni ríkisstj. aftur og aftur til að knýja fram breytta tekjuskiptingu með því að skammta launafólki kjör sem ekki eru í neinu samræmi við heildartekjur þjóðarinnar, m. a. með skefjalausum gengisfellingum og hækkunum á óbeinum sköttum. Þessi látlausa viðleitni til kjaraskerðingar hefur stuðlað að verðbólgu meira en nokkuð annað.

Nýjasta dæmi eru kaupránslögin í vetur, sem nú er mætt af hálfu Verkamannasambands Íslands með útskipunarbanni. Baráttuaðferðin er nýstárleg og hefur ekki áður verið reynd. Eins og allir sjá miðar hún að því að þreyta andstæðinginn án þess að verkafólk þurfi að færa miklar fórnir og án þess að framleiðsla stöðvist í einstökum byggðarlögum. Það var þegar í upphafi tilkynnt, að veittar yrðu undanþágur til útskipunar, ef nauðsyn bæri til þess að komast hjá framleiðslustöðvun. Nú hafa undanþágur verið veittar hvað eftir annað. Hitt leynir sér ekki, að þeir atvinnurekendur, sem þráast við að standa við gerða samninga, eru settir í mikinn vanda. Kostnaður þeirra eykst verulega,ekki síst fjármagnskostnaður, og hagnaður þeirra af kjaraskerðingunni verður að engu. Atvinnurekendur, sem nú stynja undan afleiðingum útskipunarbannsins, ættu að hafa það í huga, að ekkert í kaupránslögum ríkisstj. frá því í vetur bannar þeim beinlínis að greiða fullar vísitölubætur. Þeir verða til neyddir fyrr eða síðar að hlaupa undan pilsfaldi ríkisstj. og standa við þá samninga sem þeir hafa gert.

Góðir hlustendur. Hver efast um að breytinga sé þörf? Hver efast um að þörf sé nýrrar stefnu í efnahags- og atvinnumálum Íslendinga? Þar dugar engin hentistefna. Þungamiðja íslenskra stjórnmála verður að færast til vinstri. Ég vil sérstaklega hvetja menn til að kynna sér ítarlegar till. Alþb. í efnahags- og atvinnumálum. Þessar till. eru í rúmlega 100 liðum og verða sérstaklega kynntar einhvern næstu daga.

Margt ber til að ástæða er fyrir menn að hlusta vel eftir þeim till. sem Alþb. ber fram. Alþb. er langstærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og öflugasti málsvari verkalýðshreyfingar. Alþb. er eini flokkurinn með skýra vinstri stefnu á öllum sviðum. Lítum t. d. á verðlagsmálin og frv. ríkisstj. um frjálsa álagningu. Þar stendur Alþb. eitt gegn liði stjórnarflokkanna, en bæði Alþfl. og SF klofin með Gylfa Þ. Gíslason og Magnús T. Ólafsson í liði stjórnarsinna. Alþb. er eini flokkurinn sem einhuga hafnar erlendri stóriðju. Allir þm. flokksins greiddu atkv. gegn járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Í stóriðjumálum hafa Alþfl. og Sjálfstfl. staðið saman eins og einn maður til stuðnings erlendri stóriðju, en Framsfl. klofnaði í tvær fylkingar. Þannig má rekja hvert málið af öðru: herstöðvamál, skattamál, kjaramál. Án áhrifa Alþb. verður ný og róttæk stefna ekki mörkuð.

Núv. ríkisstj. hefur gengið svo fram af mönnum með harkalegri kjaraskerðingu, aðgerðaleysi í skattamálum og almennu stjórnleysi á flestum sviðum, að hennar hlýtur að bíða harður dómur fólksins þegar þar að kemur. En hvað tekur við? Svar kjósenda verður að vera ótvírætt. Því aðeins eru gagnger umskipti í nánd, að Alþb., forustuflokkur vinstri manna, vinni ótvíræðan sigur. — Ég þakka þeim sem hlýddu.