138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

útflutningur á óunnum fiski.

[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Flutningur á óunnum fiski úr landi, gámafiski, hefur einmitt verið mjög til skoðunar í ráðuneytinu í sumar. Eins og hv. þingmaður minntist á hefur flutningurinn á síðustu árum aukist nokkuð og síðan 2003 hefur þetta verið umtalsvert magn. Við erum að tala um 50.000–60.000 tonn af botnfisksafla sem hefur farið út með þessum hætti.

Lögð er áhersla á að íslensk fiskvinnsla hafi a.m.k. jafngóða möguleika og geti boðið í þann fisk sem veiðist hér við land og fer á markað, geti boðið í hann á samkeppnisgrunni á við fiskvinnslur erlendis. Það eru aðgerðir til skoðunar í ráðuneytinu til að grípa til enn frekari aðgerða hvað þetta varðar. Vissulega er best að þeir aðilar sem þarna eiga hlut að máli, útgerðir, fiskmarkaðir og fiskvinnslur, komist að samkomulagi sín á milli um það hvernig þessu verði við komið þannig að fullkomið jafnræði sé. Ég legg áherslu á að það gerist.

Það er alveg hárrétt að nú, sérstaklega nú seinni part sumars og í haust eftir að hámarksaflaheimildir í ýsu voru lækkaðar, hefur orðið harðari samkeppni, sérstaklega um ýsu í vinnslu. Ég tek undir þessi sjónarmið hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni að þetta er mjög mikilvægt, a.m.k. að tryggt sé jafnræði innlendrar fiskvinnslu í þessum efnum og ég mun beita mér fyrir því.