142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég tel sem sagt að í ljósi þess sem segir í nefndarálitinu að nauðsynlegt sé að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsemi dómstólanna. Það kemur auðvitað til umfjöllunar hvort önnur mál sem kunna að vera brýn líka tefjist fyrir vikið. Það þarf ekki að vera en það er fróðlegt að vita hvort nefndin hafi rætt þau málefni sérstaklega.

Varðandi millidómstigið sem ég nefndi fyndist mér áhugavert fyrir nefndina að fara að minnsta kosti yfir það og kanna þá hvort einhver ákveðin vinna sé í gangi í stjórnkerfinu á vegum innanríkisráðuneytisins eða annarra við að skoða eða hugsanlega móta tillögur um slíkt og hvort þess sé að vænta að frumvarp um slíkt mál komi hingað inn á haustþingi. Þetta er bara ábending inn í umræðuna um þetta mál af því að það snertir starfsemi dómstólanna og hlýtur auðvitað að hafa einhver áhrif á starfsemi þeirra þó að það sé ekki endilega víst að þau verði mjög mikil. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta eru mörg mál, það er nefnt í greinargerð með frumvarpinu að þau séu um 60 og vísað í umsögn dómstólaráðs að við Héraðsdóm Reykjavíkur séu til meðferðar um það bil 60 mál af þeim toga sem hér um ræðir en það kann að vera vísun í eitthvað annað.

Eins og ég segi vildi ég bara koma þessari ábendingu hér á framfæri. Ég teldi að það gæti verið áhugavert fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að ræða að minnsta kosti skipulagsmál dómstólanna og kynna sér hvort og þá hvaða vinna (Forseti hringir.) kynni að vera í gangi í þeim efnum.