150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ekki rétt að Bretar hafi ekki komið fram með lausn. Ég verð líka að játa að ég er ekki til þess bær að koma fram með þá lausn. Ég er sammála hv. þingmanni með það að Bretar gátu vitanlega ekki gert ráð fyrir því að fá allt fyrir ekkert. Þeir gátu ekki gert ráð fyrir því að halda öllum sömu réttindum og þeir höfðu, hafa algjört viðskiptafrelsi, eða hvernig menn hafa það, en á sama tíma kannski neitað því að ákveðnir hlutar viðskipta ættu að fara fram o.s.frv. Það er alveg ljóst að innan Bretlands voru og eru aðilar sem hafa, held ég, haft allt of miklar væntingar til þess hvað hægt væri að gera og hvað væri ekki hægt að gera. Mitt mat er að hefðu menn hins vegar — og það er best að hafa báða aðila undir — komið til borðsins með fullri sanngirni hefðu þeir eflaust getað leyst þetta. Upplifunin er vitanlega sú að menn hafi kannski ekki lagt nógu mikið á sig Evrópusambandsmegin til að leysa vandamál Breta, en þau eru líka heimatilbúin eins og ég held að hv. þingmaður hafi bent á í ræðu sinni fyrr í dag. Það er vandræðagangur heima fyrir í Bretlandi sem hefur haft mikil áhrif inn í allt þetta leiðindamál. Fyrir okkur skiptir líka miklu máli að utanríkisþjónustan, með ráðherra í fararbroddi, haldi áfram að reyna að landa sem bestum samningum við Breta, girða fyrir allar hættur sem þar kunna að vera þannig að við getum, og íslenskir þegnar, haldið áfram að sækja þau réttindi sem við höfum hingað til haft þar.