154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[12:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í ljósi umræðunnar hér sem hefur verið mjög áhugaverð þá legg ég til að frumvarp þetta fari til allsherjar- og menntamálanefndar eftir 1. umræðu. Rökin fyrir því eru mjög einföld og ég vísa til 13. gr. laga um þingsköp. Þar segir um allsherjar- og menntamálanefnd að hún fjalli m.a. um dóms- og löggæslumál, mannréttindamál, ríkisborgararétt, neytendamál, málefni þjóðkirkjunnar og jafnréttismál. Mannréttindamál heyra undir allsherjar- og menntamálanefnd. (Forseti hringir.) — Er ég ekki í ræðu?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti biðst afsökunar en klukkan sagði … )

Þess vegna legg ég til að þetta merkilega frumvarp, sem ég tel mjög mikilvægt að fái góða meðferð hjá Alþingi og í þingnefnd, fari til allsherjar- og menntamálanefndar. Og ef við tölum um nafn á stofnunum og nefndum þá mætti allsherjar- og menntamálanefnd heita mannréttindanefnd Alþingis, en ég er ekki að leggja það til og ég vona að nafnið verði ekki lagt fram. Í 8. tölulið 13. gr. um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá segir, með leyfi forseta: „Nefndin fjallar um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess …“ Í þessu frumvarpi er bara verið að leggja til að Mannréttindastofnun Íslands starfi á vegum Alþingis. Það er ekki búið að ákveða að þetta verði stofnun Alþingis. Þetta er ekki málefni Alþingis eða stofnana þess, þ.e. Mannréttindastofnun Íslands er ekki orðin undirstofnun, hún heyrir ekki undir Alþingi fyrr en frumvarpið er orðið að lögum. Þannig er þetta í dag. Ég er því miður ekki með frumvarpið með mér, ég ætlaði að taka það með mér, en það stendur í 1. gr. þess að meginverkefni og hlutverk þessarar stofnunar eru mannréttindi. Þá er eðlilegt að allsherjar- og menntamálanefnd fjalli um málið. Það er hin rétta túlkun á lögunum og ég tel mjög mikilvægt að nefndin sem er vön að fjalla um þessi mál, mannréttindamál, fái þetta frumvarp til umfjöllunar. Ef frumvarpið verður samþykkt af Alþingi óbreytt þá mun stofnunin sem slík heyra undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki allsherjar- og menntamálanefnd, en það er einungis eftir að það verður samþykkt óbreytt. Þannig að ég legg þetta til og ég vona að þetta fái rétta þinglega meðferð hvað það varðar.