150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hjó eftir því sama og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni, við eigum að nálgast hvert annað með virðingu og fólk á ekki að tala niður til annars fólks. Ég ætla ekki að réttlæta orð þessa ágæta manns frá Lúxemborg sem ég man ekki hvaða embætti gegndi, en mér finnst þetta hafa verið á báða bóga. Við hv. þingmaður þekkjum báðir ágætlega fyrirbærið hjónaband, að fólk hittist og giftist og deilir með sér réttindum og skyldum og ábyrgð og öllu því og síðan í 20, 30 eða 40% tilfella gengur það ekki upp og fólk fer sína leiðina hvort. Það hefur í besta falli þau áhrif að fólk geti talað saman áfram, geti umgengist börnin sín sæmilega friðsamlega. Í versta falli gengur það ekki en hins vegar mun það alltaf hafa einhver áhrif. Það verður ekki þannig að fólk haldi öllum réttindum sínum. Bretar gátu ekkert ætlast til þess að þeir gætu gengið út úr Evrópusambandinu og haldið öllum þeim réttindum sem þar voru. Ég skil ekki hvar þessi fjandsemi birtist og ég myndi vilja fá nákvæma útlistun á því hjá hv. þingmanni í hvaða atriðum Evrópusambandið hefur sýnt einhverja sérstaka óbilgirni.

Hvað varðar landamærin er það gríðarlega flókið mál vegna þess að við erum með land sem er í Evrópusambandinu og svo erum við með annað sem er það ekki. Bretar hafa sjálfir ekki getað komið fram með lausn á því máli í samningaviðræðunum. Ég spyr hv. þingmann, og hann getur kannski leyst heila málið núna: Hver er lausnin á landamæradeilunni?