Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[11:53]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, á þskj. 227, 226. máli. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða að því að ljúka þeirri skráningu sem lög kveða á um. Með lögum um skráningu raunverulegra eigenda voru innleidd tiltekin ákvæði tilskipana Evrópuþingsins og -ráðsins frá árunum 2015 og 2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þrátt fyrir að liðin séu rúmlega þrjú ár frá gildistöku laganna er enn nokkur fjöldi lögaðila skráður í fyrirtækjaskrá sem ekki hefur sinnt skyldu til að skrá raunverulega eigendur og er frumvarpið lagt fram til að bregðast við þeirri stöðu.

Virðulegur forseti. Frumvarpið er jafnframt liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn lagði fyrir íslensk stjórnvöld að grípa til í því skyni að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en viðhlítandi skráning og yfirsýn yfir raunverulega eigendur fyrirtækja er veigamikill þáttur í þeim aðgerðum.

Með frumvarpinu er lagt til að tvö ný bráðabirgðaákvæði bætist við lög um skráningu raunverulegra eigenda þar sem annars vegar er kveðið á um skilvirkari úrræði fyrir ríkisskattstjóra til að koma fram skiptum eða slitum á skráningarskyldum aðilum sem hafa vanrækt skráningarskyldu samkvæmt gildandi lögum. Hins vegar er í frumvarpinu að finna nýjar reglur um skjótvirkari málsmeðferð fyrir dómstólum til að koma fram slitum á tilteknum skráningarskyldum aðilum.

Í a-lið 1. gr. frumvarpsins, sem lagt er til að verði að ákvæði til bráðabirgða II, er að finna sérreglur um aðgerðir ríkisskattstjóra í aðdraganda skipta eða slita. Þannig er í a-lið 1. gr. frumvarpsins kveðið á um það hvernig ákvarðanatöku ríkisskattstjóra í aðdraganda skipta eða slita skuli háttað. Þar með talið er kveðið á um áskoranir til aðila um að sinna skráningarskyldu en bæði skal birta áskorun í lögbirtingablaði og senda viðkomandi lögaðilum með pósti. Kveðið er á um það hvað gera skuli í tilvikum aðila sem ekki bregðast við áskorunum ríkisskattstjóra og skrá raunverulega eigendur en í slíkum tilvikum skal fjármálafyrirtækjum gert að læsa reikningum viðkomandi aðila og veita ríkisskattstjóra upplýsingar um fjárhagsstöðu þeirra svo hægt sé að meta hvort aðilinn falli undir b-lið 1. gr. frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins sem lagt er til að verði að ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um skjótvirkari málsmeðferð fyrir dómstólum til að koma fram slitum á tilteknum skráningarskyldum aðilum sem eru að reyna að komast hjá því að fullnægja skyldu til að tilkynna ríkisskattstjóra um raunverulega eigendur sína. Um er að ræða sérreglur um slitameðferð sem eru bundnar við afmarkaðan hóp skráningarskyldra aðila sem hafa lítil sem engin fjárhagsleg umsvif, þ.e. heildarverðmæti þekktra eigna aðila er undir 350.000 kr. og heildarfjárhæð þekktra skulda hans er undir 2 millj. kr. í ákvæðinu er m.a. að finna fyrirmæli um hvernig krafa ríkisskattstjóra um slit skráningarskylds aðila skuli úr garði gerð og hvernig henni verður komið á framfæri við héraðsdóm. Tilkynningar til aðila um að slík krafa sé komin fram um meðferð kröfu fyrir héraðsdómi, réttaráhrif dómsúrskurðar um slit og heimildir til kæru og endurupptöku á slíkum úrskurði. Hreyfi forsvarsmenn eða kröfuhafar aðila mótmælum við slíkri einfaldaðri slitameðferð samkvæmt ákvæðinu og viðkomandi setur skiptatryggingu þá fer um skiptin eftir almennum reglum, sbr. 17. gr. gildandi laga.

Virðulegur forseti. Þá er í ákvæðinu gert ráð fyrir að einstaklingum, lögaðilum, þar með talið fjármálafyrirtækjum og opinberum aðilum, verði skylt að láta ríkisskattstjóra í té án tafar og án endurgjalds og á því formi sem óskað er, allar upplýsingar og gögn um eignarhald og fjárhag skráningarskyldra aðila sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmdar ákvarðana.

Virðulegur forseti. Verði frumvarp það sem ég mæli hér fyrir óbreytt að lögum hlýst af því nokkur kostnaður fyrir opinbera aðila, þ.e. embætti ríkisskattstjóra og dómstóla. Frumvarpið hefur einnig í för með sér kostnað fyrir hluta þeirra lögaðila sem ráðstafanir samkvæmt frumvarpinu beinast gegn. Þá má gera ráð fyrir að þau verkefni sem fjármálafyrirtækjum eru falin með lögunum kalli á nokkra vinnu og um leið kostnað. Gert er ráð fyrir þeim kostnaði sem fellur til hjá ríkisskattstjóra og dómstólum í fjárlögunum 2021 og 2022. Áhrif frumvarpsins á atvinnulífið eru fyrst og fremst merkjanleg hjá þeim lögaðilum sem ekki hafa sinnt skráningarskyldu samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Frumvarpið hefur jákvæð áhrif á atvinnulífið og samfélagið í heild þar sem markmið þess er að ljúka þeirri skráningu sem kveðið er á um í lögum um skráningu raunverulegra eigenda, en markmiðið með lögunum er að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur aðila svo að unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem, eins og fyrr segir, miðar að því að ljúka skráningu raunverulegra eigenda samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.