149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst og við vitum það öll að heimilisofbeldi fylgir oft óhóflegri áfengisneyslu. Um leið og við aukum aðgengi erum við að opna þær dyr að auka líka heimilisofbeldið á Íslandi. Þó að aukningin sé bara 1% eða 2% getur það samt orðið til þess að ýta fólki yfir línuna þar sem hófdrykkja er öðrum megin og óhóf hinum megin.

Það er heimilisofbeldi, það er kynbundið ofbeldi og ég þarf ekki að telja þetta allt upp, við þekkjum alveg þessar slæmu aukaverkanir. Þær eru til staðar í dag. Við skulum ekki auka á þær með því að auka aðgengi, gera áfengið sýnilegra með auglýsingafrelsi o.s.frv. Metum frumvarpið út frá lýðheilsusjónarmiðum, út frá hag barna, heilbrigðiskerfisins, löggæslunnar og samfélagsins yfir höfuð en ekki út frá þessu þrönga sjónarhorni sem flutningsmenn eru með, sem er þetta viðskiptalega, út frá viðskiptafrelsi. Það er of margt í húfi. Það eru of margar slæmar aukaverkanir sem við viljum ekki takast á við.