151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breytingar á fiskveiðilöggjöf.

[13:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er hálfkúnstugt að heyra fyrrverandi sjávarútvegsráðherra stíga hér upp og tala eins og ekkert hafi verið gert á mínum tíma í ríkisstjórn. Ég held að fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti kannski frekar að líta til síns eigin tíma í ríkisstjórn, ýmist innan Sjálfstæðisflokks eða með Sjálfstæðisflokki, sem henni verður svo tíðrætt um. Því að hvað höfum við verið að gera til þess að tryggja betur eðlilegt atvinnulíf? Jú, ég fór yfir það hér áðan. Lagabreytingar, sem ég ætla reyndar að fara yfir á eftir í sérstakri umræðu, sem skipta máli; vernd uppljóstrara, ný upplýsingalög, varnir gegn hagsmunaárekstrum. Ekki man ég til þess að menn hafi mikið beitt sér fyrir þessum málum í tíð fyrrverandi ráðherra sem kemur hér upp og talar um að ekkert sé gert, að staðinn sé vörður um sérhagsmuni. Allt eru þetta mál sem snúast einmitt um að verja almannahagsmuni.

Ég hef sagt það skýrt hvað ég telji að þetta auðlindaákvæði snúist um, að mér finnist mikilvægt að það snúist um allar auðlindir landsins og það séu afmarkaðar skýrar grundvallarreglur. Hv. þingmenn geta reynt að snúa út úr því eins og þeir vilja og látið sem svo að ég sé þar með að skipa mér í flokk með stórútgerðinni. En allir sem fylgjast með vita að þessi málflutningur stenst enga skoðun. Sjálf var ég í þeirri ríkisstjórn og mælti fyrir því þegar hér voru lögð til tímabundin nýtingarleyfi. Það hefði verið betur að hv. þingmenn sem þá töluðu hæst gegn því frumvarpi hefðu haft uppi annan málflutning. Þá voru lögð til tímabundin nýtingarleyfi og það frumvarp náði ekki fram að ganga á Alþingi. Hins vegar tókst þá að setja á sérstakt veiðigjald, sem var mjög mikilvægt framfaraskref.

Ég held að við ættum einmitt að nálgast þetta verkefni þannig að við horfum í raun og veru á það hvað við getum gert til að skapa aukna sátt um sjávarútveg í landinu og tryggja þau grundvallaratriði sem eru svo mikilvæg í auðlindanýtingu, þ.e. að þessar heimildir séu aldrei afhentar neinum til eignar eða (Forseti hringir.) með varanlegum hætti, hvernig við tryggjum það síðan í löggjöfinni og hvaða aðferðir eru best til þess fallnar til að ná árangri.