154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hvet hann til góðra verka. Ég hvet hann til að halda þessu verkefni áfram sem hann fór yfir og að það sé í gangi allan ársins hring. Mestu áskoranirnar og flestu slysin eru kannski ekki þegar flestir ferðamenn eru hér heldur yfir háveturinn. Svona viðbragð getur sparað gríðarlega fjármuni. Þó að viðbragðið kosti peninga dregur það verulega úr kostnaði í öðrum innviðum. Við höfum séð það svo skýrt frá Þingvöllum. Þó að við borgum fullt gjald til HSU fyrir þjónustuna hefur HSU sparað sér tugi sjúkrabílaferða upp á Þingvelli út af viðbragðinu.

En svo er líka annað sem má ekki gleymast, þ.e. að þetta snýst mikið um forvarnir. Betra vegakerfi um sveitir landsins myndi draga verulega úr þörfinni á þessu viðbragði og álaginu á því sem dæmi. Svo myndi öryggisstaðallinn líka hækka mikið ef við komum á fót sjúkraþyrlu sem ég verð að nefna undir þessum lið.