154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að ræða um mikilvægi raunverulegra sjúkraflutninga og hve dýrmætir þeir eru, þeir styrkja innviði heilbrigðiskerfisins; ég tala ekki um þegar um háannatíma er að ræða. En við vitum líka að ferðamenn eru farnir að koma til okkar allt árið um kring og við getum farið að reikna okkur svolítið inn á það að við séum að þjónusta fleiri allt árið um kring. Það er rétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, að það er ekki síst utan háannatíma sem reynir á.

Við erum hér með hóp í gangi sem er að kanna þyrluflug til að bæta viðbragð og það er kannski það sem getur á afgerandi hátt bætt viðbragð á örlagastundu hér á Suðurlandi, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel, og á Norðausturlandi. Ég bind vonir við að við förum loksins að komast á þann stað að geta skipulagt slíkt flug til að bæta fyrir alvöru bráðaviðbragð í sjúkraflutningum.