154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:06]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og kæra þjóð. Ég er með fyrirspurn til heilbrigðisráðherra. Ég bið hann að leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér. Eins og ég skil þetta eru 362 milljarðar áætlaðir í heilbrigðiskerfið á næsta ári. Á þessu ári, eftir því sem ég skil, fara innan við 2 milljarðar í fíknivandann. Það er innan við 1% af því sem fer í heilbrigðiskerfið. Á sama tíma er fíknisjúkdómurinn sem slíkur þriðji stærsti dauðsvaldur á eftir krabbameini og hjartasjúkdómum. Og hann fær, ef við köllum þetta málaflokk, sem er nú gjarnan gert, innan við 1% af öllu því sem fer í heilbrigðiskerfið.

Málið er að fíknisjúkdómurinn er eins og ísjaki. Þeir sem standa í biðröð og fara í SÁÁ í meðferð og annað, það eru bara þau 10% sem standa upp úr. Þeir eru vandamál en þeir eru ekki vandamálið.

Árið 2022 tók lögreglan yfir 100 kíló af kókaíni og þeir sögðu mér, ég fór á fund með þeim, að þeir næðu yfirleitt milli 5–10% af því sem væri raunverulega smyglað til landsins. Það þýðir að á árinu 2022 voru af kókaíni einu saman milljón grömm á markaðnum. Ef einn maður notar 25 grömm á ári þýðir það að 40.000 manns voru að nota kókaín fyrir utan öll hin fíkniefnin sem verið er að flytja inn. Þetta er þvílíkt vandamál sem fíknisjúkdómurinn er og það eru ekki bara eiturlyf sem við köllum svo heldur líka áfengi og ýmislegt annað. (Forseti hringir.) En þetta þarf að laga og það þarf meiri peninga en innan við 1% af áætlun fjárlagaárs.