154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Samstarfið þarna á milli er bæði víðtækt og gott. Með enn þéttara og betra samstarfi og samráði er auðvitað hægt að ná frekari árangri sem ekki snýst alltaf um útgjöldin. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni í því að ef eitthvað á að vera í lagi og ef hlutverk ríkisins er einhvers staðar algerlega skýrt, og enginn annar kemur að því en ríkið sjálft, þá er það löggæsla. Auðvitað þurfum við að hafa burði til að halda henni uppi þannig að hún geti tekist á við þau verkefni sem hér eru og verða og þær breytingar sem hér hafa orðið. Og það er gott að það er ekki aðhaldskrafa á næsta ári. Það er áskorun og verkefni að það sé síðan næstu árin á eftir. Auðvitað er þetta áætlun sem teiknuð er upp og á að standa en við vitum líka að hún er uppfærð eða endurskoðuð á ári hverju. (Forseti hringir.) Ekki veit ég hver staðan verður hér eða í kringum okkur að ári liðnu en ég er (Forseti hringir.) a.m.k. sammála hv. þingmanni í því að forgangsröðunin á að vera skýr. En ég hef líka (Forseti hringir.) mjög mikinn skilning á því að það var vandasamt verk að setja þessa fjármálaáætlun saman.

(Forseti (ÁsF): Forseti minnir hæstv. ráðherra á að ræðutíminn var ein mínúta.)