149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur ræðuna. Hún kemur inn á mörg atriði sem skipta verulegu máli og er mikilvægt að hafa í huga. Eitt af því sem hún nefndi lítillega — en þó kannski ekki nægilega mikið fyrir minn smekk og þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann aðeins út í það — er þetta með drykkju ungmenna, kannski sérstaklega í ljósi þess árangurs sem hefur náðst á Íslandi í að draga úr drykkju barna og ungmenna.

Þó að ég sé ekkert rosalega gamall man ég þá tíð þegar það var helsta fréttaefni í alheimsfjölmiðlunum hvað íslenskir unglingar væru ofboðslega duglegir að neyta áfengis og skandalísera á götum og torgum vegna þess. Ég man að þegar ég fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna árið 1981 var ég einmitt spurður sérstaklega út í þetta. Þetta var það sem fólkið í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna mundi sérstaklega eftir um Ísland á þeim tíma. Auðvitað var það dálítið móðgandi.

Það sem mig langar að fá hv. þingmann til að ræða aðeins við mig er: Telur þingmaðurinn að við gætum aftur færst frá þessum árangri, komist aftur í þá stöðu? Eða telur þingmaðurinn að slík straumhvörf hafi orðið í íslensku samfélagi síðan þetta var að svona staða gæti aldrei komið upp og þess vegna væri bara allt í lagi að fara þessa leið?