149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:05]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og þakka fyrir andsvarið. Ég held að félagaþrýstingurinn og hagnaðarsjónarmiðið muni ráða. Mammon ræður ríkjum í þessu sjónarmiði sem öðrum og ekkert óeðlilegt við það að verslanir reyni að auka hag sinn. Þetta er bara fyrirtækjarekstur eins og hver annar.

Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að við stýrum þessu svolítið. Það er kannski það sem flutningsmenn eru að hugsa, að við séum alltaf með forræðishyggju í fyrirrúmi, að ekki megi ganga of langt í því og að þeir séu svolítið að girða fyrir hana í þessu frumvarpi. Ég held að hún eigi nákvæmlega við í vissum efnum, eins og kannski þessu. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega og það skiptir miklu máli að við séum svolítið leiðandi og að við opnum ekki óþarflega mikið. Ég held að aðgengi sé nægjanlegt þó að það sé takmarkað.

Við getum farið í ÁTVR, við getum farið inn á veitingahús, hvort sem það er með matvöru eða annað, og keypt okkur áfengi með mat eða inni á bar. Ég held að aðgengið sé nægjanlegt eins og það er núna og sé ekki hamlandi. Ég man alveg þá tíma þegar áfengi var pantað með póstinum. Þá pantaði fólk kannski aðeins meira en það hélt að það drykki og það átti að duga næstu helgi líka en svo þegar það var komið með póstinum var það oft klárað.