154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrirspurnina. Hv. þingmaður kemur hér inn á stórt mál um það álag á okkar innviði, til að mynda heilbrigðiskerfið, sem felst í því að taka á móti fjölda ferðamanna. Hann kemur þar inn á öryggisinnviði fyrir íbúa og ferðamenn þegar þetta tímabil gengur yfir. Við fórum, ég og hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. ferðamálaráðherra, saman í tilraunaverkefni í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands í fyrra þar sem við treystum viðbragðið með því að manna bráðaviðbragðsbíl með tilheyrandi tækjabúnaði sem var staðsettur á svæðinu. Þessi svæði sem hv. þingmaður nefndi, sveitarfélögin Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Hornafjörður, efndu til málþings fyrir stuttu til þess að fjalla um þetta viðbragð og kalla eftir sambærilegum viðbrögðum.

Á tímabili verkefnisins voru skráð 19 tilvik. Af þeim voru tíu skilgreind sem slys, fjögur sem veikindi og fimm sem minniháttar. Á sama tímabili bárust sjö útköll sjúkraflutninga í gegnum 112 fyrir Öræfasveit. Í fjórum af þessum tilvikum var erindið afgreitt af viðbragðsaðila í samráði við lækni á Höfn. Engin útköll voru þess eðlis að til skoðunar kæmi að fá þyrlu á staðinn á meðan á verkefninu stóð. Það var mikil ánægja með þetta verkefni þannig að ég reikna með að við höldum áfram þessari samvinnu um þetta verkefni með HSU. Ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel þetta viðbragð frá þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem við erum með bráðaviðbragðsbíl. Og svo verður auðvitað að nefna björgunarsveitirnar sem eru að manna þetta með tveimur sveitum upp hálendið, sérstaklega yfir háannatímann. Þetta verkefni gekk vel og ég reikna með því að við förum yfir það hvað gekk vel og hvað megi betur fara og þéttum þetta verkefni. Þetta málþing sem fór fram í sveitunum hér um daginn var því mjög gott.