154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í þessari fjármálaáætlun, í þeim kafla er lýtur að löggæslu og tengdum málum, er lögð áhersla á að koma málum þannig fyrir að auka megi traust almennings til lögreglu og tryggja betri samskipti við almenning af hálfu lögreglunnar. Á undanförnum misserum hefur mikið kapp verið lagt á að vopna lögregluna, ýmist með rafbyssum, sem yrðu þá í höndum og fórum almennra lögreglumanna, eða öðrum vopnum, sem enn er eilítið óljóst hvar eiga að vera geymd og með hvaða hætti notuð. Í gang er farið ákveðið vopnakapphlaup sem ástæða er til, eins og sagan sýnir, að hafa áhyggjur af. Fyrir utan það að rannsóknir sýna að það eru meiri líkur á að vopnum á borð við rafbyssur sé beitt gegn fólki í gríðarlega viðkvæmri stöðu og jafnvel sérstakri hættu á að verða fyrir skaða, með því að verða fyrir beitingu slíkra vopna.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji þessa þróun vera til þess fallna að auka traust fólks til lögreglunnar og bæta samskipti við almenning. Þá langar mig í tengslum við fjármálaáætlun að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún teldi ekki að fjármunum væri betur varið í það að fjölga faglærðum lögreglumönnum, tryggja þjálfun almennrar lögreglu og þeirra sérsveita sem nauðsynlegar eru, sem ættu vitanlega að hafa þá frumskyldu að róa aðstæður og koma á ró í samfélaginu fremur en að ryðjast inn hjá fjölskyldufólki þar sem börn eru að leik. Mig langar að beina þessari spurningu til hæstv. ráðherra að auki: Er verið að vopna lögregluna í sparnaðarskyni?