154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt, og ég ætla að taka undir það, að það er brýnt að það sé traust á milli lögreglu og borgara í þessu landi. Ég hef ekki orðið vör við annað en að lögreglan leggi heilmikið á sig til að byggja upp traust og bæta samskipti. Það gerir hún með ýmsum hætti, m.a. á samfélagsmiðlum, en einnig með samfélagslöggæslu, með því að fara inn í skóla og byggja brýr til borgaranna, til barnanna okkar og unglinganna, þannig að börnin okkar leiti til lögreglunnar ef eitthvað bjátar á. Og það er vel.

Hv. þingmaður nefnir að hér sé farið af stað vopnakapphlaup. Það kannast ég nú engan veginn við. Ég veit hins vegar að hv. þingmaður þekkir til þess að lögreglan hefur kallað eftir því í mjög langan tíma að hún hafi betri og meiri verkfæri til þess að geta brugðist við breyttum aðstæðum í breyttum heimi, þeirri ógn sem því fylgir. Því miður erum við að sjá aukið ofbeldi hér á Íslandi. Hv. þingmaður spyr hvort þessi þróun sé til að auka traust til lögreglunnar. Þessi þróun, þessi aukna harka sem við höfum verið að sjá á síðustu árum, er ekki traustvekjandi en það eykur traust til lögreglunnar þegar almenningur í landinu finnur að hún er vel til þess fallin að bregðast við erfiðum uppákomum og atvikum sem gerast nánast á hverjum einasta degi í íslensku samfélagi.