140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég verð að viðurkenna hreinskilnislega að ég skil ekki alveg allt þetta ferli. Ég stóð í þeirri meiningu, það getur vel verið að það sé misskilningur hjá mér, að þegar farið var í svokallaðar stjórnlagaþingskosningar sem endaði í þessu stjórnlagaráði — það var um það bil einn þriðji hluti þjóðarinnar sem tók þátt í kosningunum sem sýnir kannski hversu næm ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir er fyrir því sem þjóðin kallar eftir — að með því hefði þjóðin skipað fulltrúa sína til að skila tillögum inn til þingsins til að vinna úr og gera tillögu um breytingar á stjórnarskrá.

Síðan þegar tillögum og skýrslu stjórnlagaráðs er skilað til þingsins á engin efnisleg umræða sér stað um þær tillögur, nema núna að sjálfsögðu. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það hafi í raun ekki legið fyrir nægt fóður eða nægar upplýsingar um afstöðu þjóðarinnar í gegnum þessa þjóðkjörnu fulltrúa. Þó að Hæstiréttur hafi dæmt kosninguna ógilda var farin sú leið að skipa stjórnlagaráð. Var ekki nægjanlegt fyrir þingið að vinna úr þeim hugmyndum sem þar koma fram í staðinn fyrir að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar í heild? Maður áttar sig ekki á því hvaða vægi hún hefur, þó að búnar hafi verið til einhverjar aukaspurningar, maður áttar maður sig ekki á því ferli sem fram undan er. Svo er búið að telja fullt af fólki trú um að það sé að fara í kosningar um stjórnarskrána, en þetta er náttúrlega bara ráðgefandi skoðanakönnun fyrir þingið, fyrir þá vinnu sem fram undan er. Getur hv. þingmaður tekið undir að það væri eðlilegra að þingið fjallaði bara um tillögur stjórnlagaráðs (Forseti hringir.) og léti síðan kjósa um alvörutillögur?