150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekki ánægjulegt að koma hingað upp í pontu til að fjalla um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem varðar alþjóðlega vernd, brottvísunartilskipun og dvalar- og atvinnuleyfi. Jú, það kann að vera að einhver atriði í frumvarpinu séu til bóta en því miður falla þau algjörlega í skuggann á þeim skaða sem frumvarpið inniber.

Við fjöllum hér um frumvarp um útlendinga sem að þessu sinni er lagt fram af þriðja dómsmálaráðherra þessarar ríkisstjórnar, hæstv. ráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Fyrir höfðu Sigríður Á. Andersen og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem áður gegndu embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, lagt fram svipuð mál, ýmist hér á þingi eða í samráðsgátt, en þó tókst núverandi dómsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar að bæta enn í óskapnaðinn.

Um er að ræða forgangsmál ríkisstjórnarinnar á Covid-tímum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð, sem, eins og fram hefur komið, kennir sig við mannúð og mannúðlega stefnu, afgreiddi þetta mál með fyrirvara út úr þingflokknum; hvað sem það nú þýðir. Fjöldi mála hefur strandað í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og þá aðallega þau mál sem hafa komið frá hæstv. umhverfisráðherra, svo sem miðhálendisþjóðgarðurinn og einnig fjöldi annarra mála. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að fjalla megi um þetta mál hér sem skerðir augljóslega mjög réttindi fólks sem hingað kemur í leit að vernd.

Fyrst vil ég segja um ítrekuð orð hæstv. dómsmálaráðherra, sem ég hef heyrt hér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í þessum sal, um að endursendingar til Grikklands eigi sér ekki stað: Þetta er rangt, herra forseti, og ég vona að einhver í ráðuneyti hæstv. dómsmálaráðherra fari nú í eitt skipti fyrir öll og kenni henni að það er óheiðarlegt að halda því fram að endursendingar fólks eigi sér ekki stað til Grikklands af því að það er ósatt. Þetta er óheiðarlegt og með orðum sínum er hæstv. ráðherra að stunda blekkingar.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa af heimasíðu Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að endursendingum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi verið hætt árið 2010 en Dyflinnarsamstarfið nær ekki til málsmeðferðar umsókna um vernd einstaklinga sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Endursendingum þeirra sem hingað koma og sækja um vernd — ég ætla að endurtaka þetta af því að ég sá að dómsmálaráðherra var á ferli hér einhvers staðar fyrir utan: Endursendingum þeirra sem hingað koma og sækja um vernd eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi hefur ekki verið hætt. Þeim hefur ekki verið hætt. Það vita allir sem hafa starfað í þessum geira. Að halda því fram að endursendingar til Grikklands eigi sér ekki stað er þannig ósatt. Það er óþolandi að hæstv. dómsmálaráðherra segi það, bæði í fjölmiðlum og ítrekað hér í þingsal, að þessum endursendingum hafi verið hætt þegar hún veit, eða á a.m.k. að vita, að það er rangt. Fólk er sent til Grikklands. Fólk sem er með vernd er sent til Grikklands, fólk með vernd sem er engin vernd. Fólk sem ekki hefur húsaskjól, er ekki með atvinnu, ekki skóla fyrir börnin sín, ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, ekki mat eða nokkurt skjól, er sent frá hinu ríka Íslandi í boði ríkisstjórnarinnar til Grikklands í yfirfullar flóttamannabúðir. Þannig er nú það.

En nú erum við að fjalla um frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Aðeins um samráð: Það er vert að benda á að í greinargerð með frumvarpinu er talað um samráð við Rauða kross Íslands sem hefur frá árinu 2014 alfarið annast hagsmunagæslu fyrir einstaklinga í leit að vernd hér á landi. Það er því óráðlegt að segjast vera í fullu samráði við slík mikilvæg samtök, þegar fyrir liggur að slíkt samráð átti sér ekki stað. Ef svo væri mætti ætla að Rauði kross Íslands hefði ekki talið nauðsynlegt að senda inn 19 bls. umsögn við frumvarpið inn á samráðsgátt. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Rétt er að taka fram að á síðasta samráðsfundi 20. febrúar sl. var vakin athygli á því að frumvarpið yrði birt á samráðsgátt stjórnvalda þá síðar um daginn. Frumvarpið hafði því ekki verið kynnt Rauða krossinum með öðrum hætti og ekkert samráð hefur verið haft við félagið um efni þess. Telur Rauði krossinn rétt að halda þessu til haga að gefnu tilefni, þar sem félagið hefur ýmsar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins eins og rakið verður hér að neðan, sem félagið hefur ekki fengið tækifæri á fyrri stigum til að ræða við stjórnvöld og koma á framfæri.“

Aftur gerist hæstv. dómsmálaráðherra sekur um óheiðarleika og þarna í lagatexta, í greinargerð með frumvarpinu. Eðlilega tekur Rauði krossinn þetta fram í sinni umsögn til þess að vera ekki gerður samábyrgur stjórnvöldum fyrir þessu frumvarpi sem skerðir svo mjög rétt fólks í neyð eins og raun ber vitni.

Helstu athugasemdir sem gera má við þetta nýja frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra lúta að því hvernig fólk í leit að vernd, sem hefur fengið stöðu flóttafólks í öðru ríki og hlotið svokallaða vernd þar, er algerlega svipt öllum rétti. Gripið er til hertra aðgerða gagnvart þessum hópi sem, verði frumvarpið samþykkt af stjórnarliðum hér í þinginu, á lítinn sem engan rétt á að andmæla, kæra eða gera tilraun til að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings.

Við skulum hafa það alveg á hreinu að fólk leikur sér ekki að því að koma alla leið hingað til Íslands, hafandi fengið vernd í öruggu ríki, jafnvel með börn sín, án ærins tilefnis. Það að tala stöðugt um að við verðum að verja land okkar fyrir sístækkandi hópi fólks sem þvælist að óþörfu hingað með börn sín er enn ein tilraun til að blekkja fólk sem hlustar á slíkt. Fólk er ekki á flótta með börn sín að óþörfu, herra forseti. Ekkert foreldri myndi þvælast um heimsins höf með barn að óþörfu, leitandi að vernd, vitandi ekkert hvað bíður. Við megum ekki gleyma því að svokölluð örugg ríki geta talist örugg fyrir þá sem þar búa en þau eru svo sannarlega ekki örugg ríki fyrir þá sem þurfa að hírast í flóttamannabúðum. Þau sem hafa fengið hæli í Grikklandi, Búlgaríu og Ungverjalandi eru ekki með neina vernd. Þar er ekkert skjól, ekki húsnæði, framfærsla, fæði, heilbrigðisþjónusta og hvaðeina sem þarf ætli maður að koma sér í gegnum lífið. Þar er engin vernd. Og þetta fólk ætlar ríkisstjórnin nú að senda út á guð og gaddinn fyrir ekki neitt vegna þess að íslensk stjórnvöld, íslensk stjórnsýsla, starfsfólk Útlendingastofnunar, starfsfólk kærunefndar útlendingamála, má ekki meta hvort þessir einstaklingar kunni að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Við verðum að sníða reglur okkar að raunveruleikanum. Að fá vernd í Svíþjóð eða Noregi getur í flestum tilvikum verið allt í lagi. Það getur í flestum tilvikum merkt að fjölskyldan nýtur verndar og ákveðinnar þjónustu þannig að börn líði ekki skort. Slíkar aðstæður eru alls ekki fyrir hendi í Ungverjalandi, Búlgaríu eða Grikklandi.

Í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra, sem nú er fjallað um, er gerð sú grundvallarbreyting á íslenskum lögum, eða gerð tilraun til þess, að stjórnvöldum verður ekki lengur heimilt — verið er að taka út heimildarákvæði — að meta hvort einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum hafi slík sérstök tengsl við Ísland að nærtækast sé að þeir fái hér alþjóðlega vernd eða hvort slíkur einstaklingur sé í slíkri neyð, sé í slíkum aðstæðum vegna sjúkdóms, slyss eða hvers þess sem kann að steðja að einstaklingi, að viðkomandi eigi rétt á að hljóta hér vernd, að ekki eigi að senda viðkomandi áfram. Með öðrum orðum þá leiðir þessi breyting, sem hæstv. dómsmálaráðherra er í skjóli skilvirkni að leggja hér fyrir þingið, til þess að án umhugsunar verður hægt að senda úr landi mjög viðkvæma einstaklinga til ríkja sem geta engan veginn veitt þessu fólki vernd. Sum hver hafa enda engan áhuga á því, eða stjórnvöld þeirra ríkja. Þá veltir maður fyrir sér: Er það kannski raunin með góða Ísland að stjórnvöld hafi engan áhuga á að veita fólki vernd sem er í neyð? Er það þannig?

Það er fjölmargt annað við þetta frumvarp að athuga, t.d. er verið að þrengja mjög að því að umsækjendur geti komið gögnum sínum áleiðis. Þegar einstaklingur hefur fengið að vita það í viðtali að umsókn hans verði ekki tekin til efnismeðferðar fær umsækjandinn ekki lengur að bera það undir talsmann sinn sem metur hvort tilefni sé til að kæra heldur hefst kærufresturinn samstundis. Kærufresturinn er alls 14 dagar með öllu. Umsækjandi hefur 14 daga til að kynna sér ákvörðun íslensks stjórnvalds, sem alltaf er skilað á íslensku, og umsækjandi kann varla að lesa margar blaðsíður af lagamáli á íslensku. Hann þarf fyrst að gera það. Svo kann að vera að viðkomandi þurfi að afla sér gagna frá heimalandi eða öðrum ríkjum og ef viðkomandi nær ekki að skila inn fullbúinni greinargerð á 14 dögum, samkvæmt þessu nýja frumvarpi, telst kæran niður fallin. Þá telst það þannig að viðkomandi hafi samþykkt ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að hafna því að viðkomandi þurfi á vernd að halda. Í nágrannalöndunum, af því að hæstv. dómsmálaráðherra vísaði til þess að við ættum bara að gera þetta eins og t.d. er gert í Svíþjóð og Noregi, er þessi frestur 21 dagur. Það er mun eðlilegri framkvæmd af því að samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna hvílir sú skylda á stjórnvöldum að veita umsækjendum mannúðlega meðferð og leyfa þeim að færa fram gögn til stuðnings máli sínu.

Umsækjendum sem hafa fengið vernd í öðru ríki hefur vissulega fjölgað, þeim fjölgaði á síðasta ári. Langflestar umsóknir voru frá íbúum í Írak, Afganistan og Sómalíu þar sem ljóst er að enga vernd er að fá, enda flokkast þessir einstaklingar sem flóttamenn. Af þessum 180 eru 60 börn. Eftir daginn í dag, ef frumvarpið nær fram að ganga, má aldrei, að mati hæstv. dómsmálaráðherra, meta hvort þessi 60 börn þurfa vernd af því að þau eru með vernd í flóttamannabúðum úti í heimi.

Rauði krossinn á Íslandi hefur alfarið lagst gegn því að þetta frumvarp verði að lögum. Mig langar hér í lokin, af því að tíminn er runninn frá mér og ég þurfti að hlaupa mjög yfir ræðu þá sem ég hafði samið, að lesa niðurlag greinar Kristínar Hjálmtýsdóttur, sem er framkvæmdastjóri Rauða krossins, sem hún birti á Vísi í dag. Hún segir, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn á Íslandi telur að umrædd breyting feli í sér verulega afturför og réttarskerðingu til viðkvæmra einstaklinga sem hingað leita eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í þeim ríkjum Evrópu þar sem aðstæður viðurkennds flóttafólks eru bágbornar. Leggst Rauði krossinn gegn umræddri breytingu enda mun hún leiða til athafna af hálfu íslenskra yfirvalda sem stríða gegn mannúðarsjónarmiðum.“

Ég mæli með því að hæstv. dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) hugleiði í augnablik hvort hún vilji (Forseti hringir.) stuðla að því að íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) framkvæmi eitthvað sem stríðir gegn mannúðarsjónarmiðum.