150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, stundum hafa komið upp mikilvægar sögur sem benda okkur á hvað getur farið betur í kerfinu okkar. Í þessu frumvarpi eru lögfest nokkur ákvæði sem var breytt, t.d. með reglugerð, m.a. um styttri málsmeðferðartíma er varðar börn til að mynda, og það eru einmitt slíkar sögur sem hafa stundum bent okkur á hvernig kerfið eigi að vera og hvernig við viljum sjá það. Að sama skapi þurfum við auðvitað að láta eitt ganga yfir alla og hafa jafnræði og gagnsæi í kerfinu okkar og ég vona að hv. þingmaður sé sammála um það að við tökum ekki einstakar ákvarðanir enda hefur dómsmálaráðherra ekki slíkt vald í dag. Við komum á kærunefnd útlendingamála til að geta tekið öll mál til endurskoðunar en vegna þeirrar umræðu sem hefur komið upp í tengslum við einstök mál er ég að láta vinna skýrslu um málefni barna á flótta í ráðuneytinu sem fer þvert á öll börn, hvar sem þau koma, í hvaða flokki sem við skilgreinum þau.

En af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um það hvort mér finnist það vera eðlileg niðurstaða, eðlileg leið, þá held ég að Evrópuríkin verði að standa svolítið saman að þessum breytingum, hvernig við ætlum að horfa á regluverkið í heild sinni og við höfum ekki séð mikinn árangur í þeim breytingum undanfarið, ekki samheldni kannski í Evrópu, til einhverra breytinga en þó einhverra. Og þarna held ég að fólk þurfi að standa saman. Við erum að sjá að flest Evrópuríki, ef ekki öll Evrópuríkin, senda til baka verndarmál varðandi Grikkland. En við erum samt með, líkt og önnur lönd, þetta ákvæði 42. gr. útlendingalaga, hægt er að taka verndarmál til efnismeðferðar ef aðstaðan er ómannúðleg eða vanvirðandi og það er alltaf möguleiki, og ég ítreka það hér. Það er auðvitað vilji okkar fyrst og fremst að gera vel í þessum málaflokki, að geta veitt vernd, geta veitt hana vel og gert vel fyrir þá sem fá alþjóðlega vernd en líka svarað fólki (Forseti hringir.) snemma til að það lifi síður í óvissu (Forseti hringir.) og geti aðlagast (Forseti hringir.) samfélaginu fyrr.