151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður tekur undir með mér þegar ég ræði hér um grænar áherslur. Þær verða ekki framkvæmdar nema ríkið stígi fastar inn. Þessi milljarður á ári, sem settur er inn aukalega á árunum 2022–2026, mun ekki verða til þess að við getum staðið við skuldbindingar okkar. Ég held að hv. þingmaður sjái það jafn vel og ég að gera þarf mun betur. Þau grænu skref sem við tökum, hvort sem er í nýsköpun, þróun, þegar við byggjum upp atvinnu, í kröfum sem við gerum til fyrirtækja á grænu hliðinni o.s.frv., munu leggjast með okkur og reiknast okkur til tekna þegar á líður. Þó að þessu fylgi kostnaður í byrjun er augljóst að það mun standa með okkur til lengri tíma.

Það hafa margir bent á að þjóðir heims hafi gripið til alls konar ráðstafana og brugðist hratt við út af heimsfaraldrinum. En þegar kemur að loftslagsmálunum draga menn lappirnar þó að hlýnun jarðar af mannavöldum muni verða fleiri mönnum að bana en Covid hefur nokkurn tímann gert. Ég held, forseti, að þær skattahækkanir sem við í Samfylkingunni leggjum til að horft verði til verði til bóta. Þær verði til þess að (Forseti hringir.) auka jöfnuð og það eru afskaplega margar kannanir og greiningar sem sýna að jöfnuður (Forseti hringir.) eykur hagvöxt þannig að það mun leggjast með okkur.