Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

Kjaragliðnun.

[16:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Þegar ríkisfjármálin neita að takast á við verðbólguna þýðir það að vaxtahækkanir verða þyngri. En vaxtahækkunartækið er miklu grimmara verkfæri í baráttunni við verðbólgu því að hærri vextir lenda á öllum og höggið er þyngst fyrir þá sem veikast stóðu fyrir, ekki síst fyrir það fólk sem við ræðum hér í dag. Fólk á leigumarkaði býr við ævintýralega erfiðar aðstæður og á árinu munu síðan 4.500 heimili losna undan skjóli fastra vaxta óverðtryggðra lána og þetta eru fyrstu kaupendur og þetta eru barnafjölskyldur. Það er ekki réttlætanlegt að láta tekjulágt fólk, unga fólkið og barnafjölskyldurnar bera þyngstu byrðarnar í verðbólguástandi og það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur axli einn þann kostnað sem hlýst af gjaldmiðlinum, en á Íslandi þarf að hækka vexti margfalt til að takast á við svipaða verðbólgu og annars staðar. Fjárlögin sem voru afgreidd fyrir síðustu áramót höfðu meiri þýðingu en oft áður. Viðreisn lagði þá fram tillögur um hækkun vaxtabóta, hækkun húsnæðisbóta, hækkun barnabóta. Allar voru þessar tillögur Viðreisnar felldar. Þetta hefðu verið réttlátar og skynsamlegar aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda þá sögðu okkur merkilega sögu: Ríkisstjórnin lagði ekkert til í baráttunni gegn verðbólgu og skildi viðkvæmustu hópana eftir.

Forseti. Umræða dagsins í dag hlýtur að kalla á það að nefna að fjármálaráðherra boðar núna stríð gegn lífeyrisþegum og stríð gegn eignarréttinum, hefur lagt fram áform um að slíta ÍL-sjóði með lagasetningu, áform sem lífeyrissjóðirnir hafa mótmælt mjög harðlega. Það rignir yfir hann lögfræðiálitum en fjármálaráðherrann lætur sem það komi út á eitt hvort ríkið standi við skuldbindingar sínar eða ekki, talar um að lífeyrisþegarnir geti bara bætt tjónið af lagasetningunni sjálfir. Þekkist viðlíka aðför að eignarrétti í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við?