143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

ríkisfjármál.

[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Málefni sem varða fólkið í landinu, heilbrigði þess, menntun þess og almenn lífsskilyrði á Íslandi, þ.e. að auka hér velferð, verða í forgangi næstu árin. Að sjálfsögðu er staða heimilanna, grunneininga samfélagsins, þar grundvallarmál. Svarið er því já, þetta og önnur mál sem varða heimilin í landinu verða í forgangi hjá þessari ríkisstjórn á þessu kjörtímabili.

Hvað varðar opinberar skuldir er það alveg rétt að þær eru töluvert miklar á Íslandi þó að staða Íslands sé kannski ekki jafnslæm og margra Evrópulanda hvað það varðar, við erum a.m.k. í betri stöðu til að vinna okkur úr þeim vanda. En eins og ég gat um áðan þá vinnum við okkur ekki úr þeim vanda eingöngu með niðurskurði, það verður ekki gert öðruvísi en að við förum að framleiða meiri verðmæti, að fólkið í landinu öðlist á ný frelsi til að verða virkir þátttakendur í heilbrigðu efnahagskerfi.