149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:19]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir spurningarnar aftur. Þetta er meira en neytendavernd. Þetta er raunverulega eftirlit með rekstri eða framkomu öllu heldur dreifiaðilanna. Ég bendi bara á að ég hef heyrt að menn hafi skipt um dreifiaðila. Það er virk samkeppni. Hafi menn skipt um dreifiaðila hafa þeir getað sparað allt upp í 2.500 kr. á mánuði. Þannig að það er samkeppni en eflaust má bæta hana.

Hitt er svo annað mál með einkafjárfesta, og til að firra misskilningi, að þegar við tölum um að leggja sæstreng eða þvinga okkur til þess, mun íslenska ríkið aldrei leggja þann sæstreng, það kostar 800 milljarða eða eitthvað í þeim dúr. Það verður alltaf, að mínu mati, einhver utanaðkomandi sem kemur, hvort það er Atlantic Super Connection sem hefur ekki náð neinum árangri eða IceLink, sem er breska ríkið, þá er það alltaf þannig að þetta kemur til okkar.

Ég fór nokkuð vel í gegnum það að við þurfum að taka ótal ákvarðanir um skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og alls konar leyfi varðandi það að hafa yfir höfuð næga raforku. Það þarf 500–1.000 megavött í svona strengi. Ég sé ekki fyrir mér að einhverjir einkaaðilar verði með það hér á takteinum. En þó svo væri þyrfti Alþingi þá að samþykkja það, hvort sem það væru lagabreytingar eða heimildir, til að strengurinn sem kæmi þá á vegum þessa aðila upp að strönd Íslands og fengi að tengjast. Það er því útilokað að hér verði lagður sæstrengur út af einhverjum sem vill selja vöru úr landi án margfaldrar aðkomu íslenska ríkisins. Það verður aldrei hægt að neyða íslenska ríkið til að taka þær ákvarðanir.