154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:52]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kemur inn á það að í nefndinni hafi verið rætt um útfærsluna á því sem er til grundvallar þessu frumvarpi, sem er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninga á almennum vinnumarkaði í mars. Þar er kveðið á um sérstaka greiðslu, sérstaka vaxtabótagreiðslu, sem greidd verði inn á höfuðstól eða að fólk hafi val um að hún komi til lækkunar á afborgun.

Hv. þingmaður boðar hér breytingartillögu og segir að það sé ekkert tiltökumál að þetta greiðist beint til fólks án milligöngu og að það sé í samræmi við yfirlýsinguna. Það er ekki rétt, frú forseti. Það er nákvæmlega þetta sem ríkisstjórnin tilkynnti í tengslum við kjarasamningana. Forsenduákvæði kjarasamninganna kveða á um 5–7 milljarða í sérstakar vaxtabætur, ekki hækkun á almenna vaxtabótakerfinu eins og verið er að gera með barnabótakerfið. Þar er verið að hækka fjárhæðir. Þar er verið að hækka skerðingarmörk og lækka skerðingarhlutföll en hér er um að ræða þessa sérstöku ráðstöfun.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið ljóst, af því að hún kom inn á málsmeðferð nefndarinnar og þær umsagnir sem bárust, að það er algjör samhljómur með þeim umsögnum sem bárust frá aðilum vinnumarkaðarins, frá Samtökum atvinnulífsins, frá Alþýðusambandi Íslands, um að þetta sé það sem leggja eigi til grundvallar; að þetta frumvarp sé í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er það sem forsenduákvæði kjarasamninganna hangir á.