132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[14:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það kom mjög skýrt fram í fyrri ræðu minni að ég tek fullt mark á þeim skilaboðum sem ég hef fengið. Það er líka búið að bregðast við og það er annað í farvatninu. Það er alveg ljóst að sjúkrahúsið sjálft hefur brugðist við. Þar er verið að setja verkefni í gang sem miða einmitt að því að bæta ástandið. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni, (JóhS: Bráðaástandið?) já, bráðaástandið. Verið er að ráða núna t.d. ritara til að vinna fram eftir á kvöldin til að minnka álagið á hjúkrunarfræðingunum og fleiri slík atriði sem miða að innra skipulagi sjúkrahússins. Það er því algjörlega fráleitt að halda því fram að ekkert sé verið að gera, það er bara ekki þannig.

Mér finnst líka mikilvægt að draga það fram að ég hef verið að hefja viðræður við hæstv. menntamálaráðherra til að skoða framtíðina. Það eru hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir sem eru mesta framtíðarvandamálið og ekki síst sjúkraliðarnir, sem frekar fáir hafa gert hér að umtalsefni. Ég hef mun meiri áhyggjur af stöðu sjúkraliða í framtíðinni en af stöðu hjúkrunarfræðinga þó að umræðan hér snúist mest um hjúkrunarfræðingana, það er líka vandi þar. En ég hef meiri áhyggjur af sjúkraliðunum í framtíðinni.

Af umræðunni sem hér hefur orðið um dauðsföll vil ég sérstaklega taka fram, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni, að ekki er hægt að rekja nein tilfelli með óyggjandi hætti til manneklu. Hins vegar eru tengsl á milli manneklu og mistaka í starfi og það er alveg rétt.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum að þjónustan á LSH er mjög góð. Hins vegar hafa sumir ekki sett sig úr færi um að tala um að hún sé léleg. Þar er ég ekki að meina ákveðnar starfsstéttir á spítalanum, alls ekki. Ég vil nefna bara Morgunblaðið. Ég átta mig ekki á af hverju Morgunblaðið í leiðurum ræðst að LSH með mjög ómaklegum hætti. Ég hef áhyggjur af því (Forseti hringir.) vegna þess að starfsemi sjúkrahússins er mjög öflug og ég er stolt af henni þó að margt megi þar bæta eins og ávallt.