132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:18]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. Pétri Bjarnasyni fyrir ágæta og hófstillta ræðu. Hv. þingmaður tók fram að hann ætlaði ekki að fjalla um frumvarpið sem slíkt en hann vék að ýmsum málum sem snerta rekstur Ríkisútvarpsins og fjölmiðla almennt. Ég heyrði hv. þingmann ekki fjalla mikið um afstöðu síns flokks til Ríkisútvarpsins eða til fjölmiðla en hins vegar eyddi hann töluverðum tíma í að rekja ályktanir Framsóknarflokksins sem lúta að Ríkisútvarpinu.

Ég vil í tilefni af því taka fram að meðan Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn verður Ríkisútvarpið ekki selt. Það er alveg ljóst. Hins vegar er mjög eðlilegt að með þeim breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlaumhverfinu á liðnum árum verði líka afstöðubreyting hjá stjórnmálaflokkunum til Ríkisútvarpsins. Það er samt einkennilegt þegar látið er að því liggja að vegna þess að með þessu frumvarpi á að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag með þeim takmörkunum sem koma fram í 1. gr. frumvarpsins um að það verði ekki selt, það eigi að vera í þjóðareigu, muni Framsóknarflokkurinn hugsanlega einhvern tíma samþykkja að Ríkisútvarpið verði selt, en vitað er að það eru ekki nema einn eða tveir af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á þingi sem eru talsmenn þess að það verði selt. Nú er ekki þingmeirihluti fyrir sölu og meðan Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn verður það ekki selt að öllu óbreyttu. Þetta eru ákveðnar ávirðingar sem bornar eru á flokkinn. En af því tilefni að hv. þingmaður sá ástæðu til að rekja ályktanir Framsóknarflokksins og hvernig þær hafa breyst í gegnum tíðina vildi ég árétta það, frú forseti, að Ríkisútvarpið verður ekki selt á meðan Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn og ég get ekki séð fyrir mér að hægt sé að mynda neinn annan stjórnarmeirihluta sem gæti verið hlynntur því að selja Ríkisútvarpið.