144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þetta með bjölluhljóminn, hann hljómar nefnilega mun hærra í sjónvarpinu þegar maður er heima að hlusta en hér á bak við okkur. En af því að hér hefur aðeins verið rætt um hvað skiptir máli og hvers vegna við erum með þetta mál á dagskrá núna en ekki önnur sem skipta meira málið fyrir fólkið úti í samfélaginu akkúrat á þessum tímapunkti þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins sérstaklega talað um að við breytum ekki eða vinnum úr kjaramálum hér á þinginu. Ég er algerlega ósammála því vegna þess að það stýrist af samfélagsgerðinni hvers konar aðgang við höfum að heilbrigðiskerfinu, hvers konar aðgang við höfum að menntakerfinu o.s.frv. Það er nokkuð sem við höfum rætt mjög mikið og ítrekað og gagnrýnt við gerð fjárlaga og margoft áður. Til dæmis hefur lengd vinnutíma áhrif á hversu löngum tíma við verjum með fjölskyldunni o.s.frv. Allt skiptir þetta máli, ekki bara við hér inni heldur það hvernig við búum það umhverfi sem fólkið í landinu starfar í. (Forseti hringir.) Við gætum verið að fjalla um slík mál sem kæmu sér ágætlega núna í kjarabaráttunni.