Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Aðgerðaáætlunin er í megindráttum góð. Hún felur í sér mikilvæg skref til að greina vandamál, safna upplýsingum og þróa frekari aðgerðir og ég styð það heils hugar. En það skortir aðgerðir til að leysa þann risastóra vanda sem blasir við málaflokknum núna. Þjónusta við eldri borgara er og hefur verið illa fjármögnuð og það leiðir af sér fullt af vandamálum sem kosta miklu meira en að fjármagna bara málaflokkinn almennilega. Eitt stærsta verkefnið sem blasir við er gríðarlegur skortur á dvalar- og hjúkrunarrýmum sem leiðir svo af sér mikinn fráflæðisvanda í heilbrigðiskerfinu. Aðgerðaáætlunin tekst ekki við á þetta gríðarlega aðkallandi mál né nokkur önnur af stærstu viðfangsefnum í málaflokknum núna, heldur snýst hún einna helst um greiningar og stefnumótun inn í framtíðina. Og aftur: Þarfagreiningar og þróunarverkefni eru mjög mikilvæg en það er ekki hægt að sópa risastórum áskorunum bara undir teppið í von um að geta komið kostnaðinum yfir á næstu ríkisstjórn. Staðan virðist vera sú að biðin eftir raunverulegum (Forseti hringir.) fjármögnuðum aðgerðum verður einhverjum árum seinna en það hefði verið gott að finna þær frekar (Forseti hringir.) í þessari aðgerðaáætlun sem við erum að afgreiða núna.