140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er enn eitt dæmið um mjög opna spurningu. Við höfum til þess að gera mjög lítið rætt þetta í þinginu. Í það minnsta hafa hv. stjórnarliðar ekkert mætt í þá umræðu og eins og allir þekkja sem hafa kynnt sér kosningafyrirkomulagið víðs vegar um heiminn er mjög mismunandi hvernig það er framkvæmt, m.a. hvað varðar persónukjör. Ef menn ætluðu í fullri alvöru að koma með valkost sem þjóðin geti tekið afstöðu til, hvort sem það er ráðgefandi eða bindandi, væru menn með útfærsluna á því.

Þetta getur þýtt hvað sem er. Ég er alveg sannfærður um að ef við bærum okkur saman og ræddum, t.d. bara þessi hópur, mismunandi kosningafyrirkomulag sem felur í sér mikið persónukjör væru uppi allra handa sjónarmið um hvort það væri skynsamlegt eða ekki.

Hér er bara enn ein spurningin sem uppfyllir ekki þau skilyrði sem þarf til að vanda (Forseti hringir.) til verka og koma með skýrar spurningar og ég segi að sjálfsögðu nei.