141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég er alveg undrandi á því máli sem við eigum að fara að ræða á eftir. Fyrst er frumvarp frá formönnum stjórnmálaflokka um breytingarákvæði stjórnarskrár, síðan kemur tundurskeyti inn í þingið, ein breytingartillaga lítil og sæt um heil stjórnarskipunarlög, að sjálfsögðu engar skýringar í slíku breytingarákvæði, bara ákvæðin sjálf. Menn sem tala fjálglega um mikilvægi stjórnarskrár sýna stjórnarskipunarlögunum fádæma vanvirðingu með því að láta sér til hugar koma að leggja fram í breytingartillögu ákvæði þessara fyrri stjórnarskipunarfrumvarpa.

Svo til viðbótar, svona til þess að greiða fyrir þingstörfum, er hér allt í einu komið nýtt auðlindaákvæði. Það birtist af himnum ofan og hefur að sjálfsögðu hvergi verið rætt. (Gripið fram í: Það er engin …) Og menn halda — það eru til alls kyns útfærslur á auðlindaákvæði sem ekkert samkomulag er um og ekkert hefur verið rætt. Menn halda að það sé eins og að hrista það fram úr erminni að orða auðlindaákvæði, eins og það sé bara ekki neitt mál. Þó að flokkar hafi sagt hver um sig að þeir vilji (Forseti hringir.) setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá þýðir það ekki (Forseti hringir.) að menn ætli að gera það með einhverjum flausturslegum hætti hér á síðustu dögum (Forseti hringir.) þingsins. Það kemur ekki til greina.