143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að það eru örlagaríkir hlutir að gerast. Það eru að verða gerbreyttar áherslur hér hvað varðar skattstefnu ríkisvaldsins. Það eru örlagaríkir hlutir að gerast hvað varðar tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Það kunna að vera gerast örlagaríkir hlutir innan heilbrigðiskerfisins, ég veit það ekki, en mér segir svo hugur, ýmsar vísbendingar eru um það. Síðan mælist ég til þess að við fylgjumst vel með því sem kemur til með að gerast í húsnæðiskerfinu.

Minnast menn þess þegar fjármálaráðherra sagði fyrir fáeinum dögum eða vikum að það gæti verið ráð að bankarnir tækju að sér húsnæðiskerfið? Minnast menn þess? Hvað er að gerast núna? Menn tala mikið um danskt kerfi. Þeir sem tala mest um það vita afskaplega (Gripið fram í.) lítið um það, geta engu svarað um það, afskaplega litlu. Það er yfir tveggja alda gamalt kerfi sem á að fara að setja hér af stað án þess að hafa það besta úr því kerfi, að því mér skilst, og ég fæ ekki betur séð en að Íbúðalánasjóður sé á leið inn í bankana. Það er umræða sem við tökum ekki hráa og ómelta, hvorki á Alþingi né úti í þjóðfélaginu. Sú umræða er í reynd ekki hafin, en hana verður að taka.