149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[16:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, fyrir að hefja þessa mjög svo þörfu umræðu. Eins og komið hefur fram í máli margra hv. þingmanna erum við afar stolt af okkar öflugu garðyrkju. Ég held að það megi alveg fullyrða.

Ég ræddi það fyrr í þessari umræðu hversu umhverfisvæn innlenda framleiðslan er, bæði hvað varðar hreinleika hennar en einnig að hún sparar flutninga á afurðum sem ella yrðu fluttar inn um langan veg frá öðrum löndum. Hún hefur því ekki eins slæm áhrif á loftslagsmál veraldarinnar. Svo er talað um í hinu orðinu að minnka kolefnisfótspor okkar Íslendinga.

Ég vil einnig koma því að hér hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að vera sjálfum okkur næg, að mestu, hvað varðar matvæli sem hér er unnt að framleiða. Við eigum ekki að leita langt yfir skammt í því efni. Þetta varðar líka almannavarnamálefni, ef vá ber að dyrum, að við getum framleitt innan lands þau matvæli sem við þurfum.

Herra forseti. Rafmagnskostnaður er stærsti útgjaldaliður garðyrkjunnar. Verð vegna flutnings og dreifingar á rafmagni hefur hækkað óeðlilega mikið í rekstrarkostnaði garðyrkjunnar á undanförnum árum. Við með alla þessa orku eigum að sjálfsögðu að nota hana sem allra mest til matvælaframleiðslu fyrir innlendan markað. Við viljum öll styðja við garðyrkjuna, hún gæti verið öflugri, það þurfum við að sýna í verki.