149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[17:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka öllum þessa frábæru umræðu og ég vil hvetja ráðherra til að koma núna með grænmetisstefnu til næstu 10–15 ára. Ég er viss um að allir flokkar fagna því og taka þátt í þeirri stefnumótun. Ég held að það sé orðin þörf á því. Við verðum líka átta okkur á einu í þessu samhengi, t.d. með útiræktað grænmeti, að við ræktum ekki allar tegundir hérna. Ég sá einhvern tímann viðtal við konu sem var að rækta tómata utan dyra og það voru hægvaxta tómatar. Hún sagði að þeir væru ofurfæða vegna þess að því hægara sem viðkomandi grænmeti vex því sterkara er það, gefur af sér meira af vítamínum. Við erum alltaf að reyna að finna þessa ofurfæðu og veljum oft auðveldu leiðina og tökum hana í töflum. En það væri miklu nær að við færum ofan í það að kortleggja hvað hentar okkur, það væri langbest að gera í svona stefnumótun. Þá er það hitt, við tökum þá ákvörðun að það eru ekki tollar á rafmagnsbílum og annað til þess að auðvelda skiptin úr bensínmengandi farartækjum yfir í vistvæn, þetta eigum við líka að gera í garðyrkjunni í sambandi við bæði tolla og styrki. Við þurfum að eyða einhverjum peningum til að koma svona góðum hlutum af stað og ég held að það væru peningar sem myndu skila sér mjög fljótt aftur inn í kerfið, sérstaklega ef við auglýsum það og látum útlendingana vita af því að við erum að rækta mjög góða, heilnæma fæðu, sem er mjög vítamínrík.