151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

spá OECD um endurreisn efnahags Íslands.

[13:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ef við skoðum ábendingarnar sem birtast í þessari skýrslu, sem snúast einmitt um að fara úr hinum almennu aðgerðum yfir í sértækari aðgerðir, þá tel ég að það sé nú það sem stjórnvöld hafi verið að gera. Ef við skoðum ferilinn frá fyrstu aðgerðum yfir í nýjustu aðgerðir hefur æ meiri þungi færst yfir í þá áherslu að skapa störf og styðja betur við atvinnuleitendur. Það sjáum við eins og á átakinu okkar Hefjum störf, sem hefur gengið vel og fjöldi fólks er núna að fá störf sem hefur verið atvinnulaust í 12 mánuði eða lengur, sem munar auðvitað gríðarlega mikið um. Við höfum verið að hækka atvinnuleysisbætur og koma sérstaklega til móts við barnafólk. Allt þetta má kalla sértækar aðgerðir til þess að takast á við atvinnuleysið, sem ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um að sé brýnasta úrlausnarefnið í efnahagslífi þjóðarinnar.

Annað dæmi sem ég vil nefna í þessu, af því að þetta eru kannski hinar beinhörðu vinnumarkaðsaðgerðir, er að ég hef þá trú að þær aðgerðir sem ráðist var í til að styðja betur við fyrirtæki í þekkingargeira og nýsköpun séu þegar farnar að skila sér. Við sjáum það til að mynda á aukinni fjárfestingu, einkafjárfestingu, í nýsköpunarfyrirtækjum á Íslandi, sem eru mjög gleðilegar fréttir og getur orðið mjög mikilvægur þáttur í viðspyrnunni.

Það má deila um hvort aðgerðir okkar hafi verið of almennar framan af. Þær voru auðvitað háðar ýmsum takmörkunum, þannig að þegar við gerum þetta upp og skoðum stuðninginn við fyrirtækin þá sést það auðvitað að vegna ákvæða um tekjufall hefur mikill meiri hluti þeirra sem notið hafa stuðnings verið ferðaþjónustufyrirtækin, sem sannanlega hafa farið verst út úr þessari kreppu af augljósum ástæðum. Þannig að mitt mat er að stuðningurinn hafi ratað þangað sem hann átti að rata. Við höfum verið með skynsamlegar aðgerðir. Ég held hins vegar að það sem við þurfum að gera til lengri tíma og horfa á til að tryggja að þessi spá rætist ekki sé að viðspyrnan verði hraðari en þarna er spáð.