154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er rétt að Ríkisendurskoðun setti fram mjög alvarlegar athugasemdir varðandi fiskeldið og sagði að það væri algjörlega óljóst hvort heimildirnar væru tímabundnar eða ótímabundnar. Svar ríkisstjórnarinnar var að leggja fram frumvarp með ótímabundnum heimildum. Það var svar ríkisstjórnarinnar, sem er að mínu mati ákveðin hneisa. Ég fagna því sérstaklega að bæði matvælaráðherra og núna innviðaráðherra taki undir með okkur í Viðreisn um að það þurfi að vera tímabundnar heimildir í þessu máli. Það skiptir mjög miklu máli á meðan þögn þriðja flokksins, Sjálfstæðisflokksins, fer að mínu mati að verða svolítið ærandi í þessu efni. Öll þessi umræða undirstrikar nákvæmlega það sem við höfum verið að segja í Viðreisn. Það þarf öryggisventil í stjórnarskrána. Það er ekki hægt að treysta framkvæmdarvaldinu og meiri hluta þingsins til að tryggja nákvæmlega þetta, að auðlindir þjóðarinnar séu raunverulega í hennar eigu, séu raunverulega undir hennar yfirráðum. (Forseti hringir.) Við þurfum alltaf á endanum að tryggja auðlindaákvæði sem tryggir um leið tímabundin afnot af auðlindum í eigu þjóðar. Annað væri hneisa og það væri uppgjöf af okkar hálfu hér í þinginu ef við myndum hleypa auðlindaákvæði með öðrum hætti í gegnum þingið.