154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

greiðslur úr jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar.

[15:33]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka að ég tel og hef lagt á það áherslu og m.a. vitnað til greiðslna sem við höfum innt af hendi til barna á flótta en þar hefur verið greitt jafnt til allra sveitarfélaga. Þegar ég segi hér að ég sé ekki nákvæmlega inni í þeim samtölum sem hafa verið milli ráðuneytis og Reykjavíkurborgar í þessu tiltekna máli þá er það vegna þess að ég er ekki innviðaráðherra og jöfnunarsjóðurinn er ekki á minni könnu. Ég veit því ekki nákvæmlega hvernig samningaviðræður standa á milli Reykjavíkurborgar og innviðaráðuneytisins í þessu. Ég veit hins vegar að fyrir þinginu hefur legið frumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að jafna þessar greiðslur. Ég studdi það frumvarp í ríkisstjórn, ég studdi það frumvarp í mínum þingflokki og hef stutt það í samtölum mínum við borgarfulltrúa í Reykjavík, enda legg ég mikla áherslu á að það sé gert til jafns þegar kemur að þessum þáttum. Við erum að nýta þekkingu Reykjavíkurborgar í mjög góðu samstarfi, m.a. við skóla- og frístundasvið í borginni, um hvernig við getum nýtt þá reynslu sem þar er. Þar erum við að gera ráð fyrir fjárhagssamningum þar á milli. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvernig ég get svarað þessu mikið skýrar.