138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[14:36]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er lagt til að starfsemi Þjóðskrár, sem nú er rekin sem skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, og starfsemi Fasteignaskrár Íslands, sem er ríkisstofnun á ábyrgðarsviði ráðuneytisins, verði sameinuð í nýja stofnun sem fái heitið Þjóðskrá Íslands. Lagt er til að sameiningin miðist við 1. júlí nk.

Frumvarpið er byggt á starfi samráðshóps um málefni Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Í samráðshópnum voru fulltrúar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, skrifstofustjóri Þjóðskrár og forstjóri Fasteignaskrár Íslands. Hópurinn var settur á fót í tengslum við flutning á málefnum Fasteignaskrár Íslands frá fjármálaráðuneytinu til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis síðasta haust. Með þeirri breytingu heyrðu tvær af grunnskrám ríkisins undir ábyrgðarsvið dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, Fasteignaskrá Íslands, sem fer með skráningu allra fasteigna í landinu, og Þjóðskrá, sem annast m.a. almannaskráningu og útgáfu ýmissa vottorða og skilríkja því viðkomandi.

Samráðshópnum var í fyrstu falið að skoða möguleika á sameiningu tölvudeildar Þjóðskrár og Fasteignaskrár. Hópurinn lagði til að deildirnar yrðu sameinaðar og var það gert um síðustu áramót. Í kjölfar tillagna um sameiningu tölvudeildanna var samráðshópnum falið að kanna til hlítar hagkvæmni þess að sameina starfsemi Fasteignaskrár og Þjóðskrár að fullu. Var það mat samráðshópsins að slík sameining mundi fela í sér aukna möguleika á rekstrarhagræði með ýmiss konar samrekstri og samvinnu. Helstu rök að mati hópsins snúa að því að Þjóðskrá og Fasteignaskrá hafa með höndum sambærileg verkefni, þ.e. að meginviðfangsefni þeirra eru skráning, varsla, úrvinnsla og miðlun upplýsinga um grunnþætti þjóðfélagsins. Einnig eru samlegðaráhrif á sviði skráarhalds, stoðþjónustu, öryggismála og miðlun og sölu upplýsinga eins og nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu.

Í lok janúar skipaði ég stýrihóp til að hafa yfirumsjón með framkvæmd sameiningarinnar en í hópnum eru fulltrúar ráðuneytisins, Þjóðskrár og Fasteignaskrár. Hópurinn hefur unnið að ýmsum atriðum varðandi undirbúning sameiningar, skipulag og breytingar á húsnæði. Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun verði í húsnæði því sem Fasteignaskrá Íslands er nú í að Borgartúni 24 í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Þjóðskrá er nú hluti af ráðuneyti og eru ákvarðanir hennar í stjórnsýslumálum fullnaðarákvarðanir. Með því að starfsemi Þjóðskrár verði hluti af ríkisstofnun verða ákvarðanir sem sú stofnun tekur kæranlegar til ráðuneytisins. Þessi breyting er í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttarins um tvö stjórnsýslustig.

Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna mótar sérstök stjórn starf og innra skipulag Fasteignaskrár Íslands. Hún ákvarðar einnig gjaldskrá stofnunarinnar sem standa skal undir rekstri hennar. Í 3. gr. er kveðið á um að hlutverk stjórnar Fasteignaskrár Íslands muni haldast óbreytt en að það nái ekki til starfsemi sem fellur undir lög um þjóðskrá og almannaskráningu eða annarra laga um starfsemi Þjóðskrár.

Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að starfsmenn haldi störfum sínum og starfskjörum. Þannig er samkvæmt ákvæðinu gert ráð fyrir að forstjóri Fasteignaskrár Íslands haldi starfi sínu og verði forstjóri hinnar nýju stofnunar. Þá skal núverandi skrifstofustjóri Þjóðskrár halda starfi sínu sem skrifstofustjóri í hinni nýju stofnun.

Sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár gefur möguleika á lækkun útgjalda til lengri tíma. Það er þó stefna ráðuneytisins að fjárhaldslegt svigrúm verði í fyrstu nýtt til framþróunar í starfseminni, svo sem með innleiðingu öryggisvottunar Þjóðskrár, yfirfærslu pappírsgagna Þjóðskrár í rafrænt form og hönnunar- og forritunarkostnaði við að gera kerfi Þjóðskrár og Fasteignaskrár sambærileg. Eftir að þessi verkefni eru að baki skapast forsendur til töluverðrar kostnaðarlækkunar og eftir atvikum aukinnar tekjuöflunar á grundvelli vöruþróunar. Einnig auðveldar sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár það að mæta og bregðast við fyrirsjáanlegri hagræðingarkröfu næstu ára.

Sameinuð Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands getur einnig orðið grunnur að nýrri stofnun er taki við rekstri fleiri grunnskráa ríkisins og samhliða mætti færa stjórnsýsluverkefni og ýmis verkefni á sviði skráningar og afgreiðslu til sýslumannsembætta á landsbyggðinni. Frekari þróun þjóðskrárgagnagrunnsins á rafrænt form mun veita möguleika á slíkum flutningi verkefna. Þjóðskrá Íslands tekur við verkefnum Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands samkvæmt lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og tengdum lögum.

Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir snýr eingöngu að sameiningu þessarar starfsemi í eina stofnun en tekur ekki að öðru leyti til framangreindra laga. Lög um skráningu og mat fasteigna eru tiltölulega nýlega endurskoðuð og ekki var talið tilefni til að endurskoða þau nema það sem beinlínis snýr að sameiningunni. Ég hef hins vegna í hyggju að setja á fót nefnd um endurskoðun laga um þjóðskrá og almannaskráningu. Þau lög eru að grunni til frá árinu 1962 og í ljósi breyttra starfshátta og samfélagsbreytinga er nauðsynlegt að endurskoða þau og ýmis lög sem þeim tengjast.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.