138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

bætur til bænda og björgunarsveita.

[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi Suðurlandsskjálftana og þá nýliðnu reynslu sem af þeim má draga stendur nú svo á að nýlega kom út skýrsla um þá aðgerð þar sem farið var vel yfir bæði það sem vel tókst og annað sem betur má fara. Það er handhægt og hæg heimatökin að styðjast við reynslu af því starfi, sjálfsagt mál að gera það og njóta góðs af þeim sem þar stóðu fyrir verkefninu.

Varðandi kostnað fellur hann til með ýmsum hætti og víða við þessar aðstæður. Það er ljóst að margar stofnanir hafa búið við stóraukið álag og heilmikil útgjöld. Má þar nefna ekki síst Landhelgisgæsluna sem hefur flogið daglega og jafnvel oftar en daglega, bæði á flugvél og þyrlum. Auðvitað verður að fara yfir þau mál öll, hvaða kostnað menn geta borið út úr sínum hefðbundna rekstri og með sínum hefðbundnu fjárveitingum og hverju verður að mæta sem tilfallandi og óumflýjanlegum kostnaði sem af þessum atburðum hlýst.