149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eitt er að samþykkja stórmál af þessu tagi óséð, stórmál sem að dómi lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar felur það í sér að erlendir aðilar hafa a.m.k. eins og þeir orða það, óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Ég verð að segja það sömuleiðis, frú forseti, að það er mér ekki gleðiefni að verða vitni að því að vandað og gott fólk skuli ætla að styðja þetta mál á grundvelli sjónarmiða eins og þeirra sem hafa komið fram í blaðagreinum og vitnað hefur verið til, að orkuverð muni lækka þegar við blasir hið gagnstæða, í þeirri trú að hér sé einhver nauðsyn á að efla einhverja neytendavernd þegar ekki hefur verið sýnt fram á annað en að neytendavernd hér sé í bærilegu lagi. Og að nauðsynlegt sé að standa vörð um opið, frjálst og alþjóðlegt samfélag á Íslandi með því að samþykkja þennan orkupakka þegar þær spurningar eru fjarri því uppi í þessu máli.