149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu yfirferð. Ég hef einmitt skoðað þennan sama texta og það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að maður þarf svolítið að gaumgæfa þetta og fletta fram og til baka og skoða hvað verið er að vísa í. Þetta getur nefnilega virst svolítið flókið á köflum, en það er þannig sem þeir ná þér, eins og þar stendur. Eitt vísar á annað en allt tengist þetta saman og myndar eitt net með eitt stórt markmið, þ.e. að ná að grípa orkumarkaðinn og færa hann í hendur sameiginlegrar evrópskrar stofnunar.

Hv. þingmaður nefndi Orkustofnun á Íslandi. Það er einmitt mjög áhugavert að skoða þennan texta og annan texta sem honum tengist með tilliti til Orkustofnunar og framtíðarhlutverks hennar. Í tengslum við þriðja orkupakkann og þingsályktunartillöguna sem við ræðum núna hefur hæstv. iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp um breytingar á eðli og hlutverki Orkustofnunar. Hluti af því sem kemur fram í því frumvarpi er að Orkustofnun skuli verða, ef svo má segja, frjáls undan ráðherranum, frjáls undan lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Íslandi, verða sjálfstæð. Nema hvað hinn raunverulegi tilgangur er ekki sá að Orkustofnun verði sjálfstæð. Hinn raunverulegi tilgangur er að hún geti farið inn í það hlutverk sem Orkustofnun Íslands verður þá ætlað samkvæmt þessu fyrirkomulagi þriðja orkupakkans, rétt eins og öðrum orkustofnunum landa í Evrópu, þ.e. að geta verið nokkurs konar útibú fyrir ACER hér á landi og framfylgt vilja þeirrar stofnunar.

Það er því fráleitt að stjórnvöld skuli halda því fram nú að (Forseti hringir.) engar breytingar verði á þessu. Þau eru að leggja fram raunverulegar breytingar sem munu hafa veruleg áhrif.