154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur þetta frumvarp verið lagt fram oftar en einu sinni og fengið umfjöllun núna í síðustu lotu, undirbúið af öðrum fjármálaráðherra heldur en þeim sem hér stendur. Eins og ég nefndi í framsögu minni hyggst ég ekki leggja neina áherslu á að þetta mál klárist í vor. Ég hef ekki nokkra trú á að það sé hægt. Það eru einfaldlega miklu fleiri mál hér inni en við munum ná að ljúka á þeim tiltölulega skamma tíma sem er þangað til júní lýkur göngu sinni og við verðum komin í einhvers konar sumarfrí og ég legg meiri áherslu á að þau verkefni verði kláruð.

Ég er algerlega opinn fyrir útfærslu á því hvar þessum sjóði er fyrir komið, þekki og hef tekið þátt í umræðu og það hafa verið skiptar skoðanir um kosti og galla þess að hafa hann til að mynda í Seðlabankanum eða hýsa hann með einhverjum tilteknum hætti. Þetta er einfaldlega eitt af því sem ég mun skoða nánar í áframhaldandi vinnu við þetta en mér fannst mikilvægt að ljúka því að mæla fyrir málinu hér á þinginu, fá umsagnir til þingsins sem við getum nýtt okkur í áframhaldandi vinnu sem og vonandi í almennri umræðu í samfélaginu vegna þess að það skiptir máli þegar við erum að fara að leggja af stað í svona langtímaverkefni að við séum öll sem í þessu samfélagi búum meðvituð um kosti og tilgang slíks sjóðs.